Beint í efni
Skrif og slökun

Skrif og slök­un (2/2)

Ritsmiðja fyrir skúffuskáld. Við hugsum öll í sögum og ef til vill geta frásagnir og myndlíkingar endurbyggt laskaða sjálfsmynd eftir áföll.

Ef þú vilt stíga út fyrir þægindarammann og draga fram í dagsljósið hugleiðingar og skrif sem hafa legið í hugskoti þínu eða í tölvunni, þá gæti þetta námskeið verið fyrir þig. Kannski er kominn tími til að vinna meira með efnið.

Námskeiðið inniheldur kynningu á hinum ýmsu aðferðum og hvernig hægt er að vinna með stutta texta: smásögur, örsögur og ljóðsögur. Sjónsköpun og hugleiðsla eru notaðar sem kveikjur til að draga fram það sem dulvitundin geymir. Ritstjórnarferlið er kynnt og þátttakendum gefst tækifæri til að fá ritstjórnarlestur á verk sitt. Lögð er áhersla á skrifæfingar.

Við hugsum öll í sögum og ef til vill geta frásagnir og myndlíkingar endurbyggt laskaða sjálfsmynd eftir áföll. Þegar tvenndarhugtakið fer frá heilbrigði yfir í veikindi þá breytist sjónarhornið og sjálfsmyndin breytist, hún laskast og við það rís oftast einhver þörf að orða reynsluna, til að finna merkingu og tilgang. Leitað er að skilningi á því hvers vegna allt breyttist og varð öðruvísi en vonir og væntingar stóðu til og ekki síður hefst leit að leiðum til að vinna úr þeim harmi sem hlýst af. Að skrifa um líðan sína er ein leið til þess að öðlast jákvæðari merkingu og breyta sjónarhorni.

Námskeiðið stendur yfir í tvö skipti.  Seinna skiptið er miðvikudaginn 14. maí kl. 13:00 – 15:00 í húsnæði Krabbameinsfélagsins, Skógarhlíð 8.

Leiðbeinendur eru:  
Ásdís Káradóttir, MA í ritlist, BA í bókmenntafræði, hjúkrunarfræðingur með framhaldsnám í sálgæslu og Jóga Nidra kennsluréttindi. 
Sæunn Unu Þórisdóttir, MA í hagnýtri ritstjórn og útgáfu, BA í bókmenntafræði með ritlist sem aukagrein, útstillingahönnuður. 

Skráning og nánari upplýsingar er á radgjof@krabb.is eða í síma 800 4040. Ekkert þátttökugjald. 

UMSAGNIR ÞÁTTTAKENDA

Mér þótti mjög áhugavert að sjá ritstjórnar hliðina á bókaútgáfu. Ég væri til í framhald. Takk fyrir mig.

Ritsmiðjan hentar vel sem kveikja fyrir verk sem liggja í skúffum eða kolli þátttakenda. Kveikjan færir þau í dagsljósið fyrir hlustendur og vonandi í bók.

Áhugavert-hvetjandi-valdeflandi-fróðlegt-praktískt. Kostur hvað námskeiðshaldarar hafa góða nærveru og tala mannamál.

Frábært námskeið til að koma sér í gang með hugsanir og skrif á sem bestan mögulega hátt. Getur nýst fyrir hvern og einn eða sem hluti af stærra verkefni.