Kynlíf og krabbamein
Kynlíf og nánd eru yfirleitt mikilvægir þættir í lífi fólks og það á líka við eftir greiningu krabbameins.
Vandinn er hins vegar sá að krabbamein og krabbameinsmeðferð geta haft áhrif á ýmsa þætti sem hafa með kynheilbrigði einstaklings að gera. Afleiðingar af krabbameini eða meðferð geta komið fram líkamlega og valdið til að mynda þreytu, slímhúðarþurrki, þrengingu legganga eða ristruflunum hjá karlmönnum. Einnig getur kynlöngun breyst og breytingar á líkamanum haft áhrif á hvernig þú upplifir þig sem kynveru. Vandamál tengd kynlífi þróast því oft vegna líkamlegra og sálrænna þátta sem tengjast krabbameininu eða krabbameinsmeðferð.
Fyrir pör er gott að hafa í huga að stundum er eins og rótgróið kerfi innra með okkur kveiki á tilfinningu um að ekki sé rétt að eiga í kynferðislegu sambandi við þann sem glímir við veikindi eða þarf aðstoð og umönnun. Það er því mjög mikilvægt fyrir pör að geta rætt opinskátt um slíkar hugsanir, líðan sína, væntingar og áhyggjur varðandi kynlíf og nánd.
Mikilvægt er að geta rætt við það heilbrigðisstarfsfólk sem kemur að meðferð þinni um hvers vænta megi og einnig ef þú upplifir breytingar eða vandamál í tengslum við kynlíf. Oft eru ýmis ráð og úrræði sem geta gagnast.
Gott er að hafa í huga að það er hægt að hlúa að nándinni með öðrum leiðum en kynlífi, til að mynda með því að haldast í hendur, sýna umhyggju, faðmast, kyssast eða horfast í augu.