Þekkja línuna á milli lífs og leiðinda og vilja koma í veg fyrir hið síðarnefnda
Reynir G. Brynjarsson hefur vanið komur sínar í húsnæði Krabbameinsfélagsins undanfarnar vikur. Erindið er að fylla á birgðir af bleikum varningi sem hann hefur að eigin frumkvæði tekið í umboðssölu fyrir Krabbameinsfélagið. Okkur lék forvitni á að vita hver kveikjan að verkefninu væri og fengum hann til að segja okkur aðeins frá því.
„Þetta byrjaði þannig að ég kíkti við til að versla mér Bleika slaufu og bleikt hálsband,“ segir Reynir. Það voru hæg heimatökin, því Reynir starfar sem viðhalds- og skipulagsstjóri hjá Landhelgisgæslunni, steinsnar frá húsnæði Krabbameinsfélagsins. „Ég lenti á spjalli við þau sem starfa í móttökunni, sem er upp til hópa stórskemmtilegt fólk, og hugmyndin spratt upp úr því spjalli. Ég komst að því að ég gæti fengið vörur frá ykkur og posa og farið með upp í Landhelgisgæslu til að bjóða til sölu í mötuneytinu í hádeginu.“
Móttökurnar hjá samstarfsfólki hans voru alveg frábærar og í kjölfarið ákvað Reynir að víkka út kvíarnar. „Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur auðvitað aðsetur í Skógarhlíðinni og þar eru einnig viðbragðsaðilar á borð við Neyðarlínuna, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og fleiri. Það er bara ótrúlegt fólk sem vinnur í þessum geira, þetta eru allt starfsmenn sem þekkja línuna á milli lífs og leiðinda og vilja allir koma í veg fyrir hið síðarnefnda. Þannig að þar voru móttökurnar einnig alveg frábærar. Heilt yfir heppnaðist þetta stórvel.“
Þeir sem geti, geri
Reynir segir einstaklingsframtakið mikilvægara en margir gera sér grein fyrir þegar kemur að stórum samfélagslegum vandamálum eins og krabbameini. „Það er enginn einn stór aðili á bak við tjöldin sem ákveður hvernig við ætlum að mæta áskorununum. Það sem ég hef lært á mínum árum hjá Landhelgisgæslunni er að allir eiga möguleika á því að gera eitthvað sem leiðir betri hluti af sér og það er svo margt sem við getum gert. Einstaklingsframtakið skiptir öllu máli, það gerist ekkert nema það sé til staðar. Það skiptir öllu máli að þeir sem geti, geri.“
Hjarta Bleiku slaufunnar í ár er slagorðið Verum bleik – fyrir okkur öll, en það vísar til máttarins sem er fólginn í sýnilegri samstöðu. Reynir tekur undir það og segir þetta einmitt ekki bara snúast um að kaupa slaufuna heldur skipti ekki síður máli að bera hana. „Krabbamein er alls staðar í kringum okkur og oft nær en við höldum. En það er nú þannig að á meðan það er ekki í okkar nánasta umhverfi þá þurfum við á áminningunni að halda. Þess vegna held ég að það sé gott að vera gaurinn í svörtu jakkafötunum og Bleiku slaufu sokkunum sem minnir hina á að taka þátt. Við getum gert enn betur ef við hjálpumst öll að.“
Skorar á lögregluna að taka við keflinu
Reynir segir nokkuð öruggt að hann eigi eftir að láta til sín taka fyrir hönd félagsins í framtíðinni. „Þetta er heilbrigt og gott málefni sem leiðir gott af sér, svo það er gaman að eiga þátt í því.“ Hann langar einnig að skora á aðra að taka við keflinu og nefnir lögregluna sérstaklega í því samhengi. „Það væri gaman að sjá lögregluna taka þetta upp. Þeir eru með stöðvar út um allt land og gætu látið þetta ganga á milli starfsstöðva hjá sér. Ég skora á lögregluna að vera næstir til að ári.“
Krabbameinsfélagið vill koma á framfæri kærum þökkum til Reynis fyrir framtakið og til allra sem hafa styrkt verkefnið með einum eða öðrum hætti.