Heilnæm útivist með fræðsluívafi
Á nýju ári taka Krabbameinsfélagið og Ferðafélag Íslands höndum saman og bjóða upp á námskeið þar sem farið verður í vikulegar göngu- og fræðsluferðir. Námskeiðið stendur fólki sem fengið hefur krabbamein og aðstandendum þeirra til boða.
Krabbameinsfélagið og Ferðafélag Íslands undirrituðu á dögunum með sér samstarfssamning um fræðandi göngunámskeið fyrir fólk sem fengið hefur krabbamein og aðstandendur. Námskeiðið stendur frá 20. janúar til 15. júní og á því tímabili verður farið í 21 gönguferð í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þátttökugjaldi verður haldið í algjöru lágmarki, en fyrstu þrjár göngurnar eru án endurgjalds og eftir það er námskeiðsgjald 5.000 kr.
Skráning stendur yfir á radgjof@krabb.is og í síma 800 4040.Nánari upplýsingar og dagskrá námskeiðsins má nálgast hér.
Bleik ganga varð upphafið að frekari samstarfi félaganna
„Leiðir félaganna lágu saman í bleikri göngu á Úlfarsfell síðasta haust, en þar kviknaði hugmyndin að verkefninu,“ segir Páll Ásgeir Ásgeirsson, fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands. „Við ákváðum bara strax að grípa þennan bolta á lofti, því okkur hjá félaginu er annt um það hlutverk sem við gegnum þegar kemur að lýðheilsumálum. Við höfum áður tekið þátt í svipuðum verkefnum, t.d. í samstarfi við VIRK og SÁÁ, og viljum gjarnan láta gott af okkur leiða hjá þeim samfélagshópum sem við teljum að geti notið góðs af okkar þekkingu.“
Ótvíræður ávinningur af útivist
Meðal helstu markmiða Krabbameinsfélagsins er að bæta lífsgæði fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda þeirra. Heilnæm útivist getur stuðlað að betri andlegri og líkamlegri heilsu fólks sem tekst á við afleiðingar krabbameins og meðferða vegna þess. Einnig er félagsskapur við aðra sem eiga svipaða reynslu að baki mjög jákvæður. Að auki sjá leiðsögumenn Ferðafélags Íslands um að miðla áhugaverðum fróðleik um náttúru og sögu í gönguferðunum, svo námskeiðið verður sannkölluð líkamleg og andleg heilsubót.
„Ávinningurinn af útivist er ótvíræður,“ segir Rósa Sigrún Jónsdóttir, fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands. „Það hafa allir gott af því að hreyfa sig, læra að vera úti, klæða sig eftir veðri og fræðast um sögu og náttúrufar. Það er þó ekki síst þessi sigurtilfinning sem fylgir því að ná markmiðum sínum sem er valdeflandi fyrir fólk. Að standa á einhverjum toppi sem maður hefur einsett sér að ná, algjörlega burtséð frá því hversu hár hann er.“
„Við erum mjög ánægð með að geta boðið upp á þessa nýjung,“ segir Steinar B. Aðalbjörnsson, sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu. „Hreyfing er einn þeirra þátta sem leika mikilvægt hlutverk í forvörnum gegn krabbameinum. Hreyfing er ekkert síður mikilvæg þegar fólk hefur greinst með krabbamein eða er að ná heilsu og kröftum á ný eftir krabbameinsmeðferð. Sýnt hefur verið fram á að hreyfing eykur ekki bara líkamlega heilsu heldur ekkert síður andlega heilsu og munar um minna þegar glímt er við krabbamein eða eftirstöðvar þess.“
Eftirtalin fyrirtæki hafa lagt verkefninu lið og erum við afar þakklát fyrir stuðning þeirra: