Beint í efni
AS WE GROW

Mottu­mars x As We Grow 2024

Mottumarssokkarnir árið 2024 voru hannaðir af íslenska hönnunarfyrirtækinu AS WE GROW. Gréta Hlöðversdóttir, Snæfríð Þorsteins og Kamilla Henriau eru hugmyndasmiðirnir og hönnuðirnir á bakvið sokkana.

„Af virðingu fyrir veröldinni” er leiðarstef AS WE GROW og hentar fatnaður vörumerkisins við fjölbreytt tilefni, jafnt hversdags sem spari. Við trúum á mikilvægi þess að framleiða fallegan og tímalausan fatnað sem endist lengur. Þannig hugsum við alla okkar hönnun og þróuðum sokkana út frá því” segir Gréta.

„Það skiptir máli að hönnuðir séu bæði greinendur og gerendur, að það sé ástæða á bak við af hverju hlutirnir eru gerðir“ segir Snæfríð. Hönnun sokkanna byggir á Mottumarsskegginu sem hefur í ár tekið á sig abstrakt yfirbragð og myndar glaðlegt símynstur í hinu hefðbundna litaþema átaksins. Símynstrið vísar í þá staðreynd að einn af hverjum þremur karlmönnum greinist einhvern tímann á lífsleiðinni með krabbamein. Þegar við klæðumst sokkunum sýnum við ekki einungis stuðning í verki heldur minnum við okkur líka á hve málið er brýnt og varðar okkur einfaldlega öll.

„Það var mjög ánægjulegt og gefandi að vinna að þessu verkefni, víkja aðeins frá hefðbundnu náttúrulegu litunum sem einkennt hafa okkar vörur undanfarin ár og gera aðeins ýktari útgáfu” segir Snæfríð. 

Snæfríð bætir við „það sem er merkilegt við þetta verkefni er að þrátt fyrir þetta alvarlega viðfangsefni var þessi ótrúlega gleði í allri samvinnunni“.