Beint í efni
Styrkleikar á Úlfarsfelli 

Vel­heppn­að­ir Styrk­leik­ar á Úlf­ars­felli

100 Úlfarsfellstindar 2024 og Bleika slaufan stóðu fyrir Styrkleikum í Bleikum október. 

Styrkleikarnir fóru fram á Úlfarsfelli, 12. – 13. október, í blíðskaparveðri. Styrkleikarnir snúast um samstöðu, samveru og samtakamátt og að styðja við, heiðra eða minnast einstaklinga sem hafa fengið krabbamein. 

Þetta var í fyrsta skiptið sem leikarnir fóru fram á fjalli hér á landi en áður hafa þeir verið haldnir á jafnsléttu á Selfossi, Egilsstöðum og á Suðurnesjum. Auk þess hafa verið haldnir Skólastyrkleikar í Smáraskóla.  

Um 40 manns mættu til leiks þegar lagt var af stað í fyrstu ferðina á Úlfarsfellið, kl. 09:00 á laugardagsmorgun. Fólk fór á fjallið á sínum forsendum, til dæmis var vinkona sem gekk jafn margar ferðir og vinkona hennar hafði farið í lyfjagjöf og fjölskylda sem gekk saman til minningar um náinn ástvin. 

Þegar rökkva tók var haldin ljósastund þar sem um 100 manns gengu saman upp á Úlfarsfell og kveiktu á kertum. Einstaklega ljúf og falleg stund. Ljósastund er einn af föstu liðum á dagskrá Styrkleika. 

Fólk var á göngu allan sólarhringinn sem er táknrænt fyrir að það fæst engin hvíld frá krabbameini. Gengnar voru um 600 ferðir, hver hringur var 3,6 km., sem gerir alls 2.160 km. Sá sem fór flestar ferðir fór 14 ferðir á fjallið, eða rúmlega 50 km. 

Styrkleikarnir eru haldnir til að sýna stuðning við þá sem fengið hafa krabbamein og safna fé til rannsókna á krabbameinum og til að veita krabbameinsgreindum og aðstandendum ókeypis stuðning, ráðgjöf og þjónustu. Alls söfnuðust 330 þúsund krónur. 

Við viljum þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessu með okkur. Sérstakar þakkir fá þeir Kjartan Long og Albert Þorbergsson sem sáu um skipulagið fyrir hönd 100 Úlfarsfellstinda. 


Viltu halda Styrkleika? 

Það geta allir, hópar, félagasamtök, fyrirtæki og skólar haldið sína Styrkleika þar sem markmiðið er að koma saman, sýna stuðning, heiðra og gleðja þá sem hafa greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra. Styrkleikarnir eru ekki keppni, heldur fer hver á sínum hraða og í sameiningu sér hópurinn um að halda boðhlaupskefli á ferðinni allan tímann.  

Allar frekari upplýsingar veitir Rakel Ýr Sigurðardóttir hjá Krabbameinsfélaginu, rakel@krabb.is