Beint í efni

Þú breyt­ir öllu

Í dag, þriðjudaginn, 1. október hefst árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins, Bleika slaufan. Í ár beinir Krabbameinsfélagið athyglinni að aðstandendum undir slagorðinu „Þú breytir öllu”. Við viljum þakka þeim sem hvorki búast við né ætlast til að fá þakkir, fólkinu sem er svo mikilvægt en á það til það að gleymast – aðstandendum.

Á Íslandi greinist að meðaltali 971 kona með krabbamein á ári hverju. Sem betur fer eru stöðugar framfarir í greiningu og meðferð sem leiða til þess að fleiri og fleiri lifa af. Í árslok 2023 voru 10.070 konur á lífi sem fengið höfðu krabbamein en því miður eru krabbamein enn stærsti orsakavaldur ótímabærra dauðsfalla á Íslandi og á hverju ári missum við að meðaltali um 306 konur úr krabbameinum.

Í dag, þriðjudaginn, 1. október hefst árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Með því að kaupa og bera Bleiku slaufuna sýnum við samstöðu í verki með málstaðnum. Bleiki dagurinn verður miðvikudaginn, 23. október.

Krabbamein varða okkur öll og eru gríðarleg áskorun, fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið allt. Í dag getum við reiknað með að 1 af hverjum 3 fái krabbamein á lífsleiðinni og öll erum við einhvern tímann í hlutverki aðstandenda.

Spáð er verulega mikilli fjölgun krabbameinstilvika á næstu árum, fyrst og fremst vegna þess að þjóðin eldist hratt.


Bleika 2024
Sparislaufan 2024 kassi
Sparislaufan 2024

Slaufan í ár er fagurbleikur og skínandi blómakrans fléttaður úr þremur nýútsprungnum blómum. Sparislaufan í ár er gullhúðað, rósagyllt koparhálsmen í samlitri keðju. Hálsmenið er einstaklega glæsilegur gripur, stílhreinn en um leið djarfur. Hálsmenið kemur í afar fallegum gjafaumbúðum og er framleitt í takmörkuðu magni.

Bleika slaufan í 25 ár

Í ár fögnum við 25 ára afmæli Bleiku slaufunnar á Íslandi. Bleika slaufan kom upprunalega til landsins í gegnum heildverslunina Artica árið 2000 og var dreift í verslanir en fólk gat styrkt baráttuna gegn brjóstakrabbameinum með framlögum sem runnu til Krabbameinsfélagsins og Samhjálpar kvenna. Bleika slaufan festi sig hratt í sessi og var þegar árið 2002 orðið árlegt árveknisátak Krabbameinsfélagsins, sem þjóðin fylkti sér á bak við.

Árið 2007 framleiddi Krabbameinsfélagið í fyrsta sinn sérstaka Bleika slaufu og önnur tímamót urðu árið eftir þegar íslenskur hönnuður átti í fyrsta sinn heiðurinn af Bleiku slaufunni.

Frá árinu 2008 hafa íslenskir hönnuðir, í góðu samstarfi við Krabbameinsfélagið, skapað einstaka Bleika slaufu á hverju ári. Í þeim hópi eru okkar færustu hönnuðir og gullsmiðir. Ein undantekning er á þessu, árið 2011, þegar afrískar konur hönnuðu og framleiddu slaufuna og fengu þá í fyrsta sinn laun fyrir sína vinnu. Frá 2010 hefur sjónum verið beint að öllum krabbameinum hjá konum í Bleiku slaufunni þó brjóstakrabbamein sé ávallt í forgrunni enda algengasta krabbamein kvenna.

Hlúðu vel að þér, kæri aðstandandi - „Þú breytir öllu“

Í ár er sjónum beint að aðstandendum undir slagorðinu Þú breytir öllu. Við viljum þakka þeim sem hvorki búast við né ætlast til að fá þakkir, fólkinu sem er svo mikilvægt en á það til það að gleymast – aðstandendum. Við vekjum athygli á aðstæðum þeirra, því mikilvæga hlutverki sem þeir gegna í alvarlegum veikindum en líka þeim áhrifum sem veikindi ástvinar hafa óhjákvæmilega á líf þeirra.

Aðkoma aðstandenda getur skipt sköpum fyrir batahorfur og lífsgæði þeirra sem glíma við krabbamein. Á sama tíma getur hlutverk aðstandandans verið verulega krefjandi enda taka flestir á sig aukna ábyrgð og ný hlutverk þegar ástvinur greinist og álagið getur verið mikið. Eðlilegt er að setja þarfi­r ástvinar í forgang á meðan tekist er á við veikindin en einnig er mikilvægt að nánir aðstandendur hlúi að eigin heilsu, það gagnast bæði þeim og ástvini þeirra.

Krabbameinsfélagið býður aðstandendum ókeypis ráðgjöf, fræðslu og stuðning. Það getur verið gott að setjast niður og ræða málin. Við erum tilbúin að hlusta og liðsinna aðstandendum. Hægt er pantað tíma í síma 800-4040 eða radgjof@krabb.is

Sigga Soffía 2
Sigga Soffía 4
Eldblóm

Hönnuður Bleiku slaufunnar er Sigríður Soffía Níelsdóttir

Sigga Soffía er danshöfundur í grunninn og þekktust fyrir flugeldasýningar og blómlistaverk en hún hannar undir nafninu Eldblóm. Hún er fjölhæfur listamaður og líkt og klifurplantan sem teygir anga sína víða teygir hönnun hennar sig allt frá dansi yfir í vöruhönnun með anga yfir í mat, flugeldasýningar, ljóðlist og nú skartgripi.  

Verkefnið hefur persónulega þýðingu fyrir hana, en hún greindist með brjóstakrabbamein árið 2020 og þurfti að fara í skurðaðgerð, lyfja- og geislameðferð og hefur því miklar og sterkar tilfinningar tengdar þessu verkefni. „Ég þekki af eigin raun hversu mikilvægt það er að hafa bakland og félag eins og Krabbameinsfélagið til styðja við mann í ferlinu öllu og ekki síður eftir að meðferð lýkur. Félagið gaf mér leiðarvísi í þeim nýja veruleika sem ég þurfti að fást við. Mér fannst mér bera skylda til að bera þennan boðskap áfram og þakka fyrir þann mikilvæga stuðning sem ég hef fengið“.

Frosið augnablik fangað

Bleika slaufan í ár er þrjú eldblóm sem mynda skínandi blómakrans sem lítur út fyrir að hafa verið dýft ofan í fljótandi málm. Augnablikið þegar blómin springa út er ákveðinn hápunktur en mörgu þarf að huga að til að plantan blómstri. Að jafna sig eftir veikindi er svipað - og því meira sem við hlúum að fólkinu okkar eftir meðferð – því líklegra er að það blómstri aftur. Aðstandendur, ókunnugir sem bjóða góðan daginn, þeir sem að styðja við, peppa og segja þér að gefast ekki upp og trúa á þig hafa meiri áhrif en margan grunar.

„Fyrir mér er slaufan næla sem er hönnuð eins og flugeldasýning þar sem flugeldar eru sprengdir upp í ákveðinni röð til að mynda ákveðna mynd eða blóm sem springa út, í slaufunni frystum við augnablikið, líkt og flugeldasýningu í hápunkti“. 

Kaupum Bleiku slaufuna 

Undanfarin ár hafa verið framleiddar tvær útgáfur af Bleiku slaufunni; almenna slaufan (kr. 3.500) sem í ár er næla og Sparislaufan (kr. 22.900) sem er hálsmen, sem er í takmörkuðu upplagi.

Sparislaufan er gullhúðað, rósagyllt koparhálsmen í samlitri keðju. Hálsmenið er einstaklega glæsilegur gripur, stílhreinn en um leið djarfur. Hálsmenið kemur í afar fallegum gjafaumbúðum og er framleitt í takmörkuðu magni. Sparislaufan hefur oft selst upp á fyrstu dögum átaksins og því er gott að tryggja sér eintak í tíma. Sparislaufan fæst í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins og í Mebu skartgripaverslun í Kringlunni og Smáralind. 

Bleika slaufan verður í sölu frá 1. til 26. október í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins og hjá hátt í 400 söluaðilum um land allt. Nánari upplýsingar á bleikaslaufan.is 


Ómetanlegur stuðningur við mikilvægt starf

Allur ágóði af sölu Bleiku slaufunnar rennur til starfsemi Krabbameinsfélagsins sem miðar að því að fækka þeim sem fá krabbamein, fjölga þeim sem lifa af og bæta lífsgæði þeirra sem veikjast og aðstandenda þeirra. Öll starfsemi félagsins byggir á stuðningi einstaklinga og fyrirtækja. Lesa má nánar um starfsemina hér.