Þráinn og Freyja fá heiðursslaufu Krabbameinsfélagsins Sigurvonar
Þráinn Ágúst Arnaldsson og Freyja Óskarsdóttir fengu heiðursslaufu vestfirska Krabbameinsfélagsins Sigurvonar í bleikum október í þakklætisskyni fyrir frábært framtak þeirra í þágu félagsins.
Þráinn og liðsfélagar hans í handboltadeild Harðar framleiddu bleika styrktartreyju í þágu Sigurvonar og Bleiku slaufunnar og seldu í október í fyrra. Þá léku liðið einnig í bleikum treyjum í Olís-deild karla þann mánuð til að vekja athygli á félaginu og áverkniátakinu. Hugmynd að þessu verkefni kom vegna tengingar þeirra vina, Þráins og Stefáns, við fjölskyldumeðlimi sem höfðu greinst með krabbamein. Móðir Þráins greindist með brjóstakrabbamein rétt fyrir Covid-19, eða í janúar 2020, en er í dag laus við krabbameinið.
Freyja stofnaði Hlaupahóp Öllu í minningu systur sinnar Aðalbjargar Óskarsdóttur sem lést í mars eftir stutta baráttu við ristilkrabbamein. Hópurinn safnaði áheitum í þágu Sigurvonar í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og söfnuðu tæplega 3,5 milljónum króna sem rennur beint til þeirra sem Sigurvon styður í krabbameinsbaráttunni en félagið veitir styrki til að reyna að jafna þann búsetumun sem hlýst af því að þurfa að sækja krabbameinsmeðferð utan heimabyggðar.
Sigurvon hefur ávallt notið góðs af hlýhug og velvilja Vestfirðinga og í ár þótti ómögulegt að velja á milli þessara tveggja frábæru einstaklinga sem hafa stutt svo dyggilega við félagið. Ákvað stjórnin því að veita tvær heiðursslaufur til að reyna sýna hversu þakklát og meir hún er yfir stuðningnum.
Nánari upplýsingar um starfsemi félagsins og heiðursslaufurnar tvær má finna ávefsíðu Sigurvonar.Krabbameinsfélagið Sigurvon er eitt af 27 aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins.