Beint í efni

Þjóð­in tók Bleiku slauf­unni opn­um örm­um

Sigríður Soffía Níelsdóttir, hönnuður Bleiku slaufunnar 2024, afhenti Krabbameinsfélaginu 8 milljónir sem söfnuðust með sölu á Sparislaufunni í ár.

Gríðarlega góðar viðtökur við Bleiku slaufunni í ár
Sigga Soffía er fjölhæfur listamaður. Hún er danshöfundur í grunninn en er þekktust fyrir flugeldasýningar og blómlistaverk sem hún hannar undir nafninu Eldblóm.

„Bleika slaufan er þrjú eldblóm sem mynda skínandi blómakrans sem lítur út fyrir að hafa verið dýft ofan í fljótandi málm til að fanga augnablikið þegar blómin springa út sem er ákveðinn hápunktur”.

Salan á slaufunni gekk afar vel og seldust um 40.000 Bleikar slaufur og 500 Sparislaufur. Sparislaufurnar eru viðhafnarslaufur, seldar í takmörkuðu upplagi. Sigga Soffía gaf alla sína vinnu við hönnun og framleiðslu á slaufunni og afhenti Krabbameinsfélaginu 8 milljónir, sem söfnuðust með sölu á Sparislaufunni.

„Ógleymanlegur Bleikur október - ævintýri að fá að taka þátt í Bleiku slaufunni. Ég áttaði mig ekki á hversu risastórt þetta verkefni er og þvílíkur kærleikur, samstaða og gleði sem umlykur það,“ segir Sigga Soffía. Krabbameinsfélagið þakkar Siggu Soffíu innilega fyrir ánægjulegt og farsælt samstarf.

„Við erum afar þakklát og meyr yfir frábærum viðbrögðum við slaufunni í ár, sem enn og aftur fóru fram úr okkar björtustu vonum og þeirri miklu velvild sem almenningur og fyrirtæki sýndu félaginu. Starfsemi Krabbameinsfélagsins er öll rekin fyrir söfnunarfé svo stuðningurinn í Bleiku slaufunni skiptir gríðarlegu máli“ segir Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður fjáröflunar- og markaðsmála hjá Krabbameinsfélaginu.

Hannar þú næstu Bleiku slaufu?
Leit er hafin að hönnuði Bleiku slaufunnar 2025. Ef þú hefur áhuga hafðu samband sem fyrst á bleikaslaufan@krabb.is. Frestur til að senda inn tillögur er til og með 1. desember 2024.

Þinn stuðningur breytir öllu
Allur ágóði Bleiku slaufunnar 2024 rennur til fjölbreyttrar starfsemi Krabbameinsfélagsins.  Félagið veitir meðal annars ókeypis ráðgjöf og stuðning við þá sem greinast með krabbamein og aðstandendur og sinnir fjölbreyttu fræðslu-, forvarnar-, og  vísindastarfi. Sjá nánar.

Hönnun Bleiku slaufunnar 2024