Beint í efni

Þegar hefð­ir og venjur þurfa að víkja fyr­ir nýj­um raun­veru­leika

Líklega er aldrei eins mikil áhersla á að við njótum samveru í faðmi fjölskyldunnar með gleði og bjartsýni að leiðarljósi eins og í desember. Fyrir þau sem eiga um sárt að binda vegna alvarlegra veikinda innan fjölskyldunnar eða þau sem hafa misst náinn ástvin vegna veikinda, geta jólin verið erfið og veruleg áskorun.

Í þessum aðstæðum víkja hefðir og venjur fyrir nýjum raunveruleika. Spurningar eins og „hvernig kemst ég í gegnum þennan tíma", geta komið upp og viljum við hjá Krabbameinsfélaginu leggja okkar reynslu og þekkingu á vogarskálarnar, vera til staðar ef á þarf að halda og benda á leiðir sem aðrir í svipuðum sporum hafa farið.

Ég gekk inn til Krabbameinsfélagsins, mölbrotin á líkama og sál og hitti þar sálfræðinga Ráðgjafaþjónustunnar. Þau eru alltaf elskuleg og taka vel á móti manni. Og það skiptir engu máli hvar á landinu þú ert, það var bara fundinn tími fyrir mig sem hentar. - Ástrós Villa aðstandandi.

Tilfinningar og minningar sem koma upp á yfirborðið eru hluti af lífinu og oft eiga þær greiðari leið að okkur í kringum jólin. Það er engin ein leið til að vinna með jólakvíða og streitu í tengslum við missi og veikindi og hvernig við vinnum með þær er einstaklingsbundið. Á meðan sumum gagnast vel að ræða um líðanina hvort sem er við vini, fjölskyldu eða fagaðila reynist öðrum t.d. betur að hugleiða eða stunda hreyfingu. Það getur verið gott að leita til utanaðkomandi aðila og von okkar hjá Krabbameinsfélaginu er að ráðgjafar okkar geti leiðbeint fólki, veitt upplýsingar og stuðning.

Ég fór strax inn á heimasíðu Krabbameinsfélagsins og það gaf mér bara strax styrk og fullt af hugmyndum. Bara að geta lesið mér til. Það var frábært að fá ráðgjafa til að tala við, hlusta á, fá öll þessi ráð og fara með manni í gegnum þetta ferli. Það veitti mér svo sannarlega mikla innspýtingu að fara sterkar inn í þetta verkefni. - Bryndís, greindist með brjóstakrabbamein árið 2023.

Við bjóðum upp á samtal við ráðgjafa ásamt námskeiðum og viðburðum allan ársins hring. Jólamolar Krabbameinsfélagsins voru búnir til með áskoranir desembermánaðar í huga. Við hvetjum þig til að fá þér mola. 

Námskeið sem verða í boði eftir áramót  ásamt föstum viðburðum eru komin inn á heimasíðu félagsins því eitt af forgangsverkefnum félagsins er að bjóða þeim sem greinast með krabbamein og aðstandendum aðstoð við að finna aftur jafnvægi í þeim ólgusjó sem veikindin geta valdið. Þjónusta Krabbameinsfélagsins er öllum að kostnaðarlausu.

Ráð­gjöf og stuðn­ing­ur þér að kostn­að­ar­lausu

Þjónusta félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga Krabbameinsfélagsins er í boði í greiningarferli, meðferð eða að lokinni meðferð, á íslensku, ensku og pólsku. Þjónustan er líka fyrir aðstandendur.