Beint í efni
DNA

Stökk­breytt DNA verð­ur að tón­list

Erfðafræði notuð sem innblástur fyrir tónlistarsköpun.

Ester Þorvaldsdóttir greindist með meinvaldandi breytingu í BRCA2 geni árið 2021 og valdi að fara í áhættuminnkandi aðgerð; tvöfalt brjóstnám ásamt uppbyggingu. Hún segir það skrítið að fá niðurstöður sem segja að það séu yfir 80% líkur á að maður fái brjóstakrabbamein þegar maður hefur ekki upplifað neitt slíkt í fjölskyldunni. „Stórfjölskyldan mín (27 afkomendur ömmu minnar) er mjög heppin hvað þetta varðar, ég var sú eina með XX litninga sem ber þessa breytingu. Svo er það bara bróðir minn og pabbi minn, en áhættan er ekki eins mikil hjá þeim, þó hún sé vissulega einhver. Ég elst því ekki upp við brjóstakrabbamein í fjölskyldunni eins og svo margir arfberar, heldur kom þetta eins og þruma úr heiðskíru lofti" segir Ester.

Stökkbreytt DNA verður að tónlist

Það var einfalt að fá aðgang að DNA-keðjunni minni, þeim litla hluta þar sem stökkbreytingin fannst. Eftir það tók við langur tími þar sem við reyndum að átta okkur á því hvernig forritin, sem gátu opnað skrána, túlkuðu gögnin; var verið að lesa niturbasakeðjuna áfram eða aftur á bak? Hvar kom stökkbreytingin nákvæmlega fram? Og svo er það stærsta spurningin þegar kemur að listræna ferlinu: Hvernig gætum við umbreytt því í hljóð og hvernig gerum við það að tónlist?

Tengsl lista og vísinda eru afar mikilvæg til að finna nýjar leiðir til að skilja heiminn. Listin getur nálgast vísindaleg viðfangsefni á annan hátt og gert þau bæði persónulegri og auðskiljanlegri. Í okkar tilviki, með því að nota erfðafræði sem innblástur fyrir tónlistarsköpun, náum við að draga fram flækjustig og óvissu sem fylgja meinvaldandi stökkbreytingum.

Með því að sameina listir og vísindi höfum við búið til verk sem er bæði tilfinningalega áhrifamikið og fræðandi, sér í lagi þar sem við munum halda litlar pallborðsumræður áður en tónleikar hefjast þar sem við segjum frá verkinu og tilurð þess. Þannig opnum við fyrir samtal sem fer út fyrir mörk hvors sviðs fyrir sig. Þetta er mjög persónuleg leið til að greina frá vísindalegum og flóknum hlutum. Listirnar hafa lengi verið einstaklega hentug leið til að fjalla um flókin vísindaleg viðfangsefni á skapandi hátt, sem gerir fólki kleift að skilja þau og túlka á sínum eigin forsendum. 

Það er ekki á hverjum degi sem fólk fær tækifæri til að hlusta á DNA, hvað þá stökkbreytt DNA. Mun fólk skilja hvar stökkbreytingin er í verkinu? Ég er ekki viss um það, kannski glöggir hlustendur! Ég mun einnig segja mína sögu með núritun (live coding) og bjaga upptökur af sjálfri mér að tala um ferlið og þá erfiðleika sem því fylgdi, þótt hlustendur nái kannski ekki að heyra orðaskil. Í tónlistinni verða raftónlist og trommusett, óvenjuleg hljóð og smá tilraunakennt rokk. Við vonum að fólk sé til í þetta tilraunakennda ævintýri með okkur. 

Tónleikar og spjall með SUPERCOIL

SUPERC­OIL tón­leik­ar og spjall - Bleika slauf­an.
Viðburðurinn verður í Norræna húsinu, Sæmundargötu 11, 101 Reykjavik, 27. október kl.17:00.
Nánari upplýsingar um viðburðinn hér.