Skimun bjargar mannslífum
Alþjóðastofnanir mæla með skimunum fyrir krabbameini í leghálsi, brjóstum og ristli og endaþarmi. Í áratugi hefur verið skimað hér á landi fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstum, lengst af hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins en á heilsugæslustöðvum og Landspítala frá árinu 2021.
Með skimun fyrir krabbameini í leghálsi er hægt að greina forstig meinanna og þannig koma í veg fyrir þau en með skimun fyrir brjóstakrabbameini er hægt að finna mein áður en þau valda einkennum. Það eykur batalíkur og getur leitt til minna íþyngjandi meðferðar en ella. Eftir áratugabaráttu Krabbameinsfélagsins hillir loksins undir að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi hefjist á vegum Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hjá heilsugæslunni.
Reglubundin þátttaka í skimunum er besta forvörnin fyrir þeim krabbameinum sem skimað er fyrir en rétt er að árétta að hún veitir ekki tryggingu gegn meinunum.
„Því miður hefur þátttaka í skimunum ekki verið nægilega góð og auk þess minnkað verulega síðustu ár“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. „Við höfum haft af þessu miklar áhyggjur og Krabbameinsfélagið hefur í ræðu og riti beitt sér fyrir umbótum sem geta aukið þátttökuna“ bætir hún við.
Félagið hefur m.a. bent á mikilvægi þess að framboð af tímum sé nægilegt, að skimunin kosti lítið eða sé gjaldfrjáls, að konur fái senda fyrirframgefna tíma með boði í skimun og að hægt sé að breyta bókun rafrænt. Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins hefur líka kostað auglýsingaherferð fyrir Brjóstamiðstöð Landspítala þar sem konur eru hvattar til að skreppa í skimun.
Aukin þátttaka er mikið fagnaðarefni
Í nýútgefnum skýrslum embættis landlæknis kemur fram að þátttaka í skimunum er á hægri uppleið, sem er mikið fagnaðarefni. Þar kemur hins vegar fram að verulegur munur er á þátttöku eftir upprunalandi kvenna, konur með íslenskt ríkisfang nýta sér boð í skimanir í mun meira mæli en konur með erlent ríkisfang. Verk er að vinna að breyta þessu.
Mikilvæg skref
Eins og Krabbameinsfélagið hefur ítrekað minnt á eykst þátttaka ekki af sjálfu sér. Aukin hvatning til þátttöku, bæði af hálfu Brjóstamiðstöðvar Landspítala með liðsinni Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins og Heilsugæslunnar hefur örugglega haft áhrif og síðdegisopnun og opin hús á ákveðnum heilsugæslustöðvum á ákveðnum tímum, þar sem konur geta mætt í leghálsskimun án þess að bóka tíma ef þær hafa fengið boð eru afar jákvæð skref.
„Við vitum úr könnunum Krabbameinsfélagsins að konur vilja almennt mæta í skimun en að ákveðið hlutfall hefur tilhneigingu til að fresta því að panta tíma. Auðvelt aðgengi er afar mikilvægt ekki síst fyrir konur sem vinna störf þar sem erfitt getur verið skreppa frá. Ég tala ekki um ef konur eru ekki á eigin bíl, þá er hætt við að heimsóknin taki enn lengri tíma sem getur fælt frá. Konur af erlendum uppruna þekkja oft réttindi sín verr en þær sem eru fæddar og uppaldar hér og við getum þurft að nýta aðrar leiðir til að ná til þeirra. Opin hús og síðdegisopnanir geta þar skipt miklu máli. Þetta er frábært framtak hjá heilsugæslunni“ segir Halla en fagnar líka hvatningu stéttarfélaganna sem voru dugleg að minna konur á þátttöku í tengslum við Bleiku slaufuna í október.
Stórlækkun skimunargjalds - risastórt fagnaðarskref
Stóru baráttumáli Krabbameinsfélagsins var siglt í höfn í haust þegar heilbrigðisráðherra tilkynnti að skimun fyrir brjóstakrabbameini yrði nánast gjaldfrjáls. Gjaldið fór úr 6.000 krónum í 500 krónur sem er sama gjald og hefur þurft að greiða fyrir leghálsskimun á heilsugæslunni frá árinu 2021.
,,Það var einstaklega ánægjulegt að fá fréttirnar um þessa ákvörðun ráðherra, við höfum barist fyrir þessu í mörg ár” segir Halla glöð í bragði ,,Gögn okkar bæði úr könnunum og tilraunaverkefni félagsins á árunum 2019 og 2020 sýna svo ekki verður um villst að gjaldfrjáls skimun gerir ákveðnum hluta kvenna kleift að nýta boð í skimun ásamt því að hvetja aðrar til að mæta. Ávinningur þess að greina brjóstakrabbamein snemma er umtalsverður bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild sinni og því stór áfangi í höfn”.
Krabbameinsfélagið hlakkar til að flytja fréttir af auknum árangri með þeim skrefum sem tekin hafa verið og nýjum aðgerðum til að hámarka árangur af skimunum.
Hér má lesa grein Höllu varðandi lækkun skimunarkostnaðar fyrir brjóstaskimun þegar ákvörðun heilbrigðisráðherra lá fyrir.