Samstaða skilar árangri
Krabbameinsfélagið afhenti Landspítala styrk til kaupa á nýrri stafrænni bókunarlausn fyrir brjóstaskimanir. Styrkurinn er afrakstur samstarfs félagsins og Íslandsbanka og 42 fyrirtækja sem eru í viðskiptum við bankann. Afhendingin markar stórt skref í áralangri baráttu Krabbameinsfélagsins fyrir að bæta þátttöku kvenna í brjóstaskimun.
Með sameinuðu átaki Krabbameinsfélagsins, Íslandsbanka og viðskiptavina hans verður mun auðveldara fyrir konur að nýta boð í brjóstaskimun.
Kannanir Krabbameinsfélagsins hafa leitt í ljós að aðalástæðan fyrir lítilli þátttöku kvenna í brjóstaskimunum er að það ferst fyrir hjá þeim að panta tíma. Tímapantanir hafa hingað til verið með gamaldags fyrirkomulagi, símtali eða tölvupósti sem getur tekið langan tíma. Með nýrri stafrænni bókunarlausn er gert ráð fyrir að gjörbreyting verði á.
Í gær afhendir Krabbameinsfélagið Landspítala styrk til kaupa á nýrri stafrænni bókunarlausn fyrir brjóstaskimanir. Styrkurinn er afrakstur samstarfs félagsins og Íslandsbanka og 42 fyrirtækja sem eru í viðskiptum við bankann. Afhendingin markar stórt skref í áralangri baráttu Krabbameinsfélagsins fyrir að bæta þátttöku kvenna í brjóstaskimun.
Þátttaka í brjóstaskimun á Íslandi, á síðasta ári, var ekki nema 56% sem er mun minna en á hinum Norðurlöndunum. Gert er ráð fyrir að þátttaka þurfi að vera um 75% til að fullum árangri af skimuninni sé náð. Í skimunum er hægt að finna krabbamein í brjósti áður en þau valda einkennum. Rannsóknir sýna að endurkoma krabbameina sem greinast svo snemma er mun sjaldgæfari fimm árum síðar en meina sem greinast utan skimunar.
Reglubundin þátttaka kvenna í brjóstaskimunum getur lækkað dánartíðni þeirra af völdum brjóstakrabbameina um 40%. Auk þess getur verið mögulegt að beita minna íþyngjandi krabbameinsmeðferð ef krabbameinin greinast snemma, sem veldur minni skerðingu á lífsgæðum. Það er því að miklu að vinna.
Krabbameinsfélagið og Íslandsbanki, ásamt 42 viðskiptavinum bankans söfnuðu 20,5 milljónum króna til kaupa á nýrri stafrænni lausn til að einfalda bókunarferlið. Með breytingunni munu konur annars vegar geta bókað sig rafrænt og hins vegar fengið senda bókun í skimun með boðsbréfi. Gert er ráð fyrir að frá og með næsta hausti verði lausnin að fullu innleidd.
Svanheiður Lóa Rafnsdóttir, yfirlæknir á Brjóstamiðstöð, tók við styrknum fyrir hönd Landspítalans. Hún þakkaði öllum þeim sem styrktu verkefnið sem gerir Brjóstamiðstöð kleift að ná enn meiri árangri í sínum störfum. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein hjá konum á Íslandi og öllu skiptir að ná sem flestum meinum snemma áður en þau eru farin að valda einkennum. Það er einmitt það sem brjóstaskimunin gerir og því er fyrir öllu að ekkert hindri konur í þátttöku.

„Krabbameinsfélagið hefur um árabil talað fyrir því að bókunarkerfið verði nútímavætt og fært rök fyrir að það sé nauðsynleg forsenda þess þátttaka kvenna aukist. Við vitum að það er mjög mikið í húfi, fyrir okkur, konurnar í landinu og okkar fjölskyldur. Við hjá Krabbameinsfélaginu erum alveg ótrúlega ánægð með að sjá hvað viðtökur viðskiptavina Íslandsbanka voru góðar og auðvitað var stuðningur bankans sem lagði krónu á móti krónu viðskiptavinanna ómetanlegur. Svo má ekki gleyma þátttöku starfsfólks Íslandsbanka sem lagðist á árarnar við söfnunina. Það er gott dagsverk að geta átt þátt í að bjarga mannslífum til framtíðar“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.
„Við höfum tröllatrú á konum í landinu og hlökkum til að sjá þátttökutölurnar vaxa mjög hratt. En svo má ekki gleyma því að í skimunum finnast ekki öll mein, þó skimunin sé ekki óbrigðul er hún það besta sem við höfum núna. Það má því ekki gleyma að þreifa brjóstin reglulega“.
„Við erum afar stolt af því að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni og vera þannig hreyfiafl til góðra verka. Við erum einnig afar þakklát viðskiptavinum okkar fyrir þeirra framlag - saman náðum við markmiðum okkar. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið að konur hafi greiðan og góðan aðgang að brjóstaskimun og með því að nútímavæða bókunarkerfið verður það að veruleika“ sagði Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka.





