Beint í efni

Hlut­verk að­stand­anda er krefj­andi en mik­il­vægt

Eiginkona Magnúsar Viðars Heimissonar er með krabbamein og segir hann að í byrjun þess ferlis hafi hann fundið fyrir ákveðinni sektarkennd yfir því að leyfa sér hluti sem hún gat ekki.

Hann nefnir hluti eins og að fara út að hlaupa, spila í golf eða synda, allt sem hún elskar að gera, svona beisikk hluti sem maður gerir en er erfiðara þegar maður er ekki með kraftinn til þess.

Hann telur hlutverk aðstandanda bæði krefjandi og mikilvægt, að vera til staðar og oft á tíðum vitirðu ekki hvað þú eigir að gera.

„Einn daginn þarftu að vera tengiliður við fjölskyldu og vini, koma skilaboðum áleiðis. Annan daginn þarftu að vera í þögninni, vera koddinn sem er hægt að kúra sig upp að og vera til staðar. Hinn daginn þarftu að vera jákvæða týpan sem getur tekið heimilisstörfin og leyft þeim sem er að ganga í gegnum veikindin að vera í sínu“.

Magnúsi segir það mikilvægt að hlúa að sér og finna að maður hjálpar ekki mikið ef maður er sjálfur á vondum stað. Fólk þurfi að finna ró og leita sér aðstoðar. Fyrir hann persónulega hefur Krabbameinsfélagið komið sterkt þar inn.

„Ég hef leitað til ráðgjafa Krabbameinsfélagsins og við hjónin höfum hitt Lóu sem við köllum bara vinkonu okkar, hana Lóu. Við höfum farið í spjall, fengið að fara í Jóga Nidra tíma sem hefur hjálpað okkur báðum mikið með ákveðna öndun og til að slaka á í kvíðaástandi. Ná að anda og ná utanum tilfinningar og annað slíkt“.

Að tala opinskátt um hlutina hefur reynst Magnúsi best, vera ekki í einhverjum feluleik og leyfa fólki að tala og spyrja. Mikið af fólki í kringum þau er umhugað um stöðuna og því gott að leyfa fólki að nálgast sig og að það viti að það sé allt í lagi að spyrja. Þannig segist hann losa um ákveðna spennu, tilfinningar og annað slíkt sem getur létt á alls konar hlutum.

„Þetta hefur kennt manni líka það um krabbamein, að það er ekki alltaf dauðadómur, alveg klárlega ekki. Það er ótrúlega flott starf unnið á mörgum stöðum sem gerir það að verkum að það er hægt að horfa fram á veginn, sjá að það þarf bara að fara í gegnum þetta verkefni sem gefur manni ákveðna von“.

Viðtalsupptaka Magnúsar Viðars Heimissonar