Mesti lærdómurinn er þakklæti og að lífið sé ekki sjálfsagt
Erna Bergmann segir mesta lærdóminn af því að hafa greinst með krabbamein vera þakklæti, að lífið sé ekki sjálfsagt og hún sé farin að njóta líðandi stundar betur – líka leiðinlegu dagana.
Þegar hún greindist var hún með eins og hálfs árs gamalt barn heima og náði hvorki að gera mikið fyrir sjálfa sig né hitta aðra í svipuðum sporum. En um leið og færi gafst fór hún að stunda Jóga Nidra af krafti.
Það liðu nokkrir mánuðir frá því að Erna byrjaði að ganga á milli lækna þar til handbolti fannst í maganum á henni, eins og hún orðar það. Handboltinn reyndist vera staðbundið krabbamein og í framhaldinu tók við ferli sem hún segir hafa gengið mjög hratt fyrir sig og það hafi verið haldið mjög vel utanum hana.
„Ég var með gott teymi, var virkilega heppin með fólkið sem kom að mínum málum. Og bara heppin í öllu ferlinu. Þurfti bara að fara í tvær aðgerðir og slapp við lyfjameðferð“.
Eftir á segist hún eiginlega hafa vonast til að hafa þurft að ganga í gegnum hið venjubundna krabbameinsferli því hún var með svo stórt áfall inni í sér, miðað við aðra að henni fannst og það sem aðrir hafa gengið í gegnum.
„Það er kannski gott fyrir einhvern að heyra að þú lendir í áfallinu, þó þú þurfir ekki að fara í gegnum lyfjameðferð eða missa hárið, þá færðu samt örið.“
Hún segir þetta alveg töff ferli verandi veik heima með barn á brjósti því hún fékk ekki forgang á leikskóla og var mikið ein heima og hitti fáa. En eftir að hann komst á leikskóla og hún kláraði ferlið þá hafi hún farið á fullt í Jóga Nidra. Þar hafi hún fundið orkuna sína og mælir með því til að safna kröftun því á meðan veikindin gangi yfir sé óveður í hausnum á manni ásamt hræðslu. Það sé því gott að eiga þetta augnablik og ímynda sér að maður blási því út í slökuninni.
„Ég vildi að ég hefði hitt fólk í svipuðum sporum því það er svo gott að tala við einhvern sem skilur þig, því það skilur þig enginn nema hafa lent í þessu.“