Beint í efni

Að finna hlý­hug og kær­leik skipt­ir svo miklu máli

Elsa Lyng Magnúsdóttir upplifði að vera kippt út úr öllu þegar hún greindist með brjóstakrabbamein í maí síðastliðnum. Hún þakkar klappliðinu sínu stuðninginn og kærleikann.

Hún segist hafa farið að hugsa margt upp á nýtt og í framhaldinu þurft að passa vel upp á hugann og leggur áherslu á að vera í góðu líkamlegu og andlegu jafnvægi.

„Við ræðum mikið saman heima, að láta okkur líða vel hvern einasta dag. Gera einn dag góðan því ef hann er góður þá tekurðu svo vel á dögum sem eru erfiðir“.

Þá segir hún endurhæfingu bæði fyrir aðgerð og lyfjagjöf skipta miklu máli, nokkuð sem hún viðurkennir að hafa mátt sinna betur. En aðstandendur sína, fjölskyldu og vini segir hún hafa hjálpað sér mest.

„Ég kalla þau klappliðið mitt. Lítil sms, símtöl, bara allt þetta skiptir svo miklu máli. Að finna hlýhug og kærleik“. 

Hún segist hafa fundið kærleikann og væntumþykjuna á skurðarborðinu, henni hafi liðið vel og hún fann að það var verið að hugsa til hennar. Hún vissi að klappliðinu stóð ekki á sama og segir það hafa skipt sig gríðarlega miklu máli að finna þennan hlýhug.

Þegar Elsa fór að missa hárið vildi hún eiga val um hvernig hún missti það. Henni leið eins og hún væri að kveðja góðan vin og vissi að þetta yrðu viðbrigði bæði fyrir hana og börnin hennar. Hún ákvað því að gera viðburð úr þessum tímamótum og fékk hárgreiðslukonu heim til að raka af sér hárið og bauð fjölskyldu og vinum til að vera með þar sem öllum bauðst að máta hárkollur og hafa gaman af. Í boðinu varð óvænt uppákoma sem snart hjarta Elsu.

Viðtalsupptaka Elsu Lyng Magnúsdóttur