Beint í efni

Saga Bryn­dísar

Bryndís Guðmundsdóttir greindist með stórt illkynja mein í öðru brjóstinu rétt fyrir hvítasunnuhelgina vorið 2022. Hún hitti ráðgjafa á Selfossi snemma í sínu ferli og segist hafa farið sterkari inn í verkefnið fyrir vikið. Hennar leiðarljós var að halda í heilsu og heilbrigði, þótt hún væri að glíma við krabbamein.

Bryndís Guðmundsdóttir greindist með stórt illkynja mein í öðru brjóstinu rétt fyrir hvítasunnuhelgina vorið 2022. Hún fékk fréttirnar rétt fyrir kvöldmat á föstudegi og hafði þá engar upplýsingar um hvort meinið væri búið að dreifa sér. „Ég fór inn í þessa löngu helgi í algjöru sjokki.“ Hún svaf lítið og illa um nóttina, en þegar hún vaknaði um morguninn var hún búin að ákveða viðhorfið sem hún ætlaði að taka með sér inn í þetta stóra verkefni.

Ég vaknaði um morguninn, snéri mér að unnusta mínum, tók utan um hann og sagði: Mig langar að lifa lengur.

Bryndís nýtti sér snemma upplýsingar á vefsíðu Krabbameinsfélagsins og segir það hafa gefið sér styrk að lesa sér til um líkur á að sigra brjóstakrabbamein. Á vefsíðunni fékk hún líka upplýsingar um ráðgjöf sem stæði henni til boða í hennar heimabyggð á Selfossi.

Það var frábært að fá aðila til að hlusta á, til að tala við, til að leita ráða hjá og fá peppið. Ættingjar og vinir hlusta á mann, en það er bara allt öðruvísi að tala við ráðgjafa á þessu stigi.

Áhersla Bryndísar í gegnum meðferðirnar var á heilsu og heilbrigði, en henni var hugleikið að sýna það að hún væri heilsuhraust og heilbrigð þótt hún væri að glíma við krabbamein. Hún hafði sig til á hverjum degi, því það hjálpaði henni að líða vel. Bryndís segist hafa farið léttar í gegnum þetta verkefni heldur en hún var búin að sjá sér í fyrstu og er þakklát fyrir hversu vel hefur gengið.

Viðtalsupptaka Bryndísar Guðmundsdóttur

https://youtu.be/Q5UAyubgzTo