Beint í efni
Eigendur Ríteil afhenda styrkinn. Frá vinstri: Ragnheiður Eva Lárusdóttir, Andri Jónsson, Þorri Snæbjörnsson KÍ, Heba Brandsdóttir, Ása Sigríður Þórisdóttir KÍ og Annie Schweitz Þorsteinsdóttir.

Rí­teil styrk­ir Krabba­meins­fé­lag­ið

Á dögunum fengum við góða gesti í heimsókn til okkar í Skógarhlíðina. Það voru fjórir fulltrúar fjölskyldufyrirtækisins Ríteil sem komu færandi hendi og afhentu Krabbameinsfélaginu veglegan styrk að upphæð 1.157.000 króna sem er afrakstur af góðgerðabás sem þau hafa verið með í verslun sinni Ríteil.

Okkur lék forvitni á að heyra meira um hvernig þetta verkefni kom til. „Þegar við fórum af stað með fyrirtækið þá sagði Andri sonur minn að við yrðum að vera með góðgerðarverkefni og leggja okkar af mörkum til samfélagsins, því við gætum það. Úr varð að við settum upp sérstakan góðgerðarbás þar sem allur ágóði af sölunni rennur í sérstakan góðgerðasjóð sem við erum nú í fyrsta sinn að afhenda styrk úr. Við erum afskaplega stolt og glöð hversu vel hefur gengið í söfnuninni og að geta styrkt þetta góða og mikilvæga starf sem Krabbameinsfélagið vinnur að alla daga” sagði Heba.

Ríteil er fjölskyldufyrirtæki sem samanstendur af foreldrunum Hebu Brandsdóttur og Þorsteini Schweitz Þorsteinssyni og börnum þeirra, þeim Daða Lárussyni, Lindu Björk Þorsteinsdóttur, Áslaugu Söru Lárusdóttur, Andra Jónssyni, Ragnheiði Evu Lárusdóttur, Annie Schweitz Þorsteinsdóttur og Jakobi Schweitz Þorsteinssyni. Verslunin er staðsett á Smáratorgi 3, í Kópavogi.

En hvað varð til þess að þau stofnuðu Ríteil? „Í dag eru sífellt fleiri að verða meðvitaðir um áhrif neytenda á jörðina okkar og mikilvægi þess að endurnýta allt sem við mögulega getum og þar af leiðandi ákváðum við að leggja okkar af mörkum og opna flotta verslun sem selur notaðar vörur fyrir alla. Við bjóðum upp á tvær leiðir í básaleigu, annars vegar hefðbundna leigu og hins vegar lúxus leigu sem hentar þeim sem hafa lítinn tíma mjög vel og hefur verið mjög vinsæll kostur” segir Heba.

Krabbameinsfélagið þakkar Ríteil innilega fyrir hlýhug og góðan stuðning. Okkur þykir afar vænt um að hafa verið fyrsti handhafi góðgerðastyrks Ríteil.

Ríteil