Ráðstefna um forvarnir gegn offitu og ofþyngd barna á Norðurlöndum
Þann 13. nóvember standa norrænu krabbameinsfélögin fyrir ráðstefnunni „Forvarnir gegn offitu og ofþyngd barna á Norðurlöndum“. Ráðstefnan fer fram í Kaupmannahöfn en verður send út í streymi, er á ensku og stendur frá 12-14 á ísl. tíma.
Ofþyngd og offita í bernsku er ógn við heilsu og lífsgæði, bæði til skemmri og lengri tíma og eykur líkurnar á ýmsum sjúkdómum, þar á meðal að minnsta kosti 13 tegundum krabbameina.
Orsakir ofþyngdar eru flóknar og engan veginn eingöngu á ábyrgð einstaklinga eða fjölskyldna. Rannsóknir sýna að ýmiskonar kerfisbreytingar eða stjórnvaldsaðgerðir geta haft jákvæð áhrif, það er á ábyrgð stjórnvalda og samfélagsins að skapa skilyrði sem auðvelda fólki að taka heilsusamlegar ákvarðanir í daglegu lífi.
Norrænu krabbameinsfélögin hafa í sameiningu sett fram ráðleggingar um stjórnvaldsaðgerðir sem byggja á gagnreyndri þekkingu með það að markmiði að fyrirbyggja ofþyngd og offitu barna. Ásamt því að ráðleggingarnar verða kynntar verður farið yfir helstu niðurstöður könnunar sem náði til allra fimm þátttökulandanna og sýnir afstöðu fólks til þessara ráðlegginga.
Að auki munu fulltrúar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO Europe) og Norrænu ráðherranefndinni flytja erindi ásamt því að fulltrúar stjórnvalda frá samstarfslöndunum munu taka þátt í pallborðsumræðum um málefnið. Fulltrúi Íslands verður Ásthildur Knútsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu lýðheilsu og forvarna í heilbrigðisráðuneytinu.