Beint í efni

Ómet­an­legt fram­lag Central Ic­eland til Bleiku slauf­unnar

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur í fjögur ár stutt Bleiku slaufuna með framleiðslu á vörum undir merki sínu, Royal B. Á dögunum afhenti hún félaginu 4.040.000 kr., sem söfnuðust með sölu á vörum hennar í ár. Rakel hefur verið dyggur samstarfsaðili félagsins, og frá árinu 2021 hefur hún styrkt starfsemi þess um 11.420.000 kr., sem er ómetanlegt.

Rakel hefur persónulega tengingu við krabbameinsmál og BRCA2-genstökkbreytingu, sem hefur greinst í fjölskyldu hennar. „Mig langaði til að leggja mitt af mörkum til að létta byrðina af öðrum og safna fé til rannsókna og fræðslu,“ segir hún. Verkefnið hófst árið 2021, þegar hún hannaði trefil til að styrkja Bleiku slaufuna, og markmið hennar var að safna milljón á ári. Því markmiði hefur Rakel heldur betur náð, enda hafa safnast ríflega 11 milljónir frá því að fyrsta varan var boðin til sölu árið 2021.

Rakel leggur mikla áherslu á vitundarvakningu um BRCA-stökkbreytingar, þar sem hún vill að fleiri hafi tækifæri til að grípa inn í. „Það hefði skipt miklu máli fyrir guðmóður mína ef hún hefði fengið að vita fyrr að hún væri BRCA-beri,“ segir hún.

Í ár hannaði Rakel silkiklút, sem fékk afar góðan hljómgrunn í átakinu og fór sala fram úr björtustu vonum. Klúturinn, eins og aðrar vörur sem Rakel hefur hannað fyrir Bleiku slaufuna, er henni sérstaklega kær. Til gamans má geta að Halla Tómasdóttir, forseti, var ein þeirra sem tók ástfórstri við klútinn og sat ásamt fjölda annarra góðra kvenna fyrir á myndefni sem notað var til kynningar á átakinu. Rakel er þegar farin að hanna og undirbúa vörur fyrir Bleiku slaufuna á næsta ár. „Þetta er gefandi en einnig flókið verkefni, þar sem ég vil tryggja að vörurnar séu bæði hágæða og uppfylli eftirspurn,“ segir hún.

Í Bleiku slaufunni má segja að fyrirtækið hennar verði algert fjölskyldufyrirtæki, þar sem fjöldi fjölskyldumeðlima stökkva til og hjálpa við pökkun og dreifingu.

Krabbameinsfélagið þakkar Rakel og Central Iceland fyrir ómetanlegt framlag sitt til Bleiku slaufunnar. 

Halla
Rakel trefill
Rakel húfa