Beint í efni

Öfl­ugt starf að­ild­ar­fé­laga Krabba­meins­fé­lags­ins í Bleik­um októ­ber

Hjá 27 aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins hringinn í kringum landið er rekið öflugt og blómlegt félagsstarf í þágu einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandenda þeirra. Í Bleikum október er mikið um að vera hjá félögunum og víða staðið fyrir stórum viðburðum sem hafa fyrir löngu fest sig í sessi sem árlegir og ómissandi.

Aðildarfélög Krabbameinsfélagsins eru 27 talsins, 20 svæðafélög sem starfa hringinn í kringum landið og 7 stuðningsfélög. Starfsemin er mismikil og mismunandi milli félaga, en öll eiga þau sameiginlegt að starfa ötullega í þágu einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandenda þeirra. Aðildarfélög Krabbameinsfélagsins njóta fjölbreytts stuðnings frá félaginu í formi fræðslu og handleiðslu, en einnig geta þau sótt um fjárhagslegan stuðning við rekstur þjónustuskrifstofa og fyrir fjölbreyttum verkefnum.

Í Bleikum október er mikið um að vera hjá félögunum og víða staðið fyrir stórum viðburðum sem hafa fyrir löngu fest sig í sessi sem árlegir og ómissandi. Í öllum landshlutum er staðið fyrir bleikum messum og boðum, auk þess sem margs konar íþróttaviðburðir eru klæddir í bleikan búning í tilefni mánaðarins. Við fengum nokkur aðildarfélög til að segja okkur frá eftirminnilegum viðburðum í mánuðinum.

Bleikt boð á Hótel Selfossi – Krabbameinsfélag Árnessýslu

Krabbameinsfélag Árnessýslu hélt sinn árlega fjáröflunarviðburð í fimmta sinn á Hótel Selfossi þann 6. október síðastliðinn. Rúmlega fjögur hundruð gestir tóku þátt í því að skapa eftirminnilega kvöldstund og eru skipuleggjendur sammála um að virkilega vel hafi heppnast til. Boðið var upp á fordrykk frá Vífilfelli og dýrindis veitingar frá Tómasi Þóroddssyni veitingamanni. Tónlist og skemmtun var á höndum einvalaliðs skemmtikrafta sem öll gáfu vinnu sína í þágu málstaðsins. Fyrstu hundrað konurnar og fyrstu fimmtíu karlmennirnir voru leystir út með gjafapokum. Hápunktur kvöldsins var síðan happdrætti, en fjöldi fyrirtækja, verslana og listamanna gefa vinninga og voru þeir hver öðrum glæsilegri.

Svanhildur Ólafsdóttir, formaður félagsins, segir það einstakt að búa í samfélagi þar sem slík samstaða og samhugur ríkir um málefni sem snertir okkur öll á einn eða annan hátt. „Það gefur starfsemi félagsins byr undir báða vængi að finna fyrir stuðningi eins og sést í Bleika Boðinu, þar sem allir eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum, koma saman, gleðjast og njóta samverunnar á góðri kvöldstund. Vegna þessarar góðvildar sem við njótum í nærsamfélaginu hafa safnast rúmar fjórar milljónir sem verður varið í áframhaldandi uppbyggingu á fjölbreyttri þjónustu við einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandenda þeirra.“

Bleik rökkurganga – Krabbameinsfélag Borgarfjarðar

Þann 30. október stóð Krabbameinsfélag Borgarfjarðar fyrir Bleikri rökkurgöngu í Settutanga í Borgarnesi. Markmið göngunnar var að sveipa umhverfi göngunnar bleikum ljóma og var það gert með því að setja bleikar filmur á vasaljós og síma. Í göngunni voru allir hvattir til að hugsa hlýlega til þeirra sem glíma við, eða hafa glímt við, krabbamein. Þátttakendur gengu í kyrrð og þögn út á tangann þar sem göngustjórinn, Guðlín Erla, lét gong hljóma um stund.

Að sögn Ingibjargar Ingu Guðmundsdóttur, formanns Krabbameinsfélags Borgarfjarðar, er stefnt að því að endurtaka viðburðinn á næsta ári víðs vegar í firðinum. „Borgarfjörðurinn tók á móti göngufólkinu í þeim lit sem til var ætlast þennan dag, því hann var sveipaður bleikum lit og veðrið alveg dásamlegt,“ segir Ingibjörg Inga. „Þetta var yndisleg samvera og göngustjórinn okkar hreif þá sem tóku þátt með einstökum hætti. Við hlökkum til að endurtaka þennan viðburð í október á næsta ári og þá vonandi á fleiri stöðum í Borgarfirðinum.“

Bleikt boð í Höllinni – Krabbavörn Vestmannaeyjum

Húsfyllir var á styrktarkvöldi Krabbameinsfélagsins Krabbavarnar í Höllinni í Vestmannaeyjum þann 6. október síðastliðinn. Bryddað var upp á þeirri nýjung að þessu sinni að öll kyn voru hvött til að mæta, þar sem stjórn Krabbavarnar vildi leggja sérstaka áherslu á að karlmenn fá líka brjóstakrabbamein. Veitingar voru að hætti Einsa Kalda og Kiddi Bigfoot þeytti skífum yfir borðhaldi, sem og á dansleik fram eftir kvöldi. Hægt var að taka þátt í happdrætti þar sem glæsilegir vinningar voru í boði, auk þess sem Blush stóð fyrir vörukynningu sem vakti mikla lukku. Bryndís Ásmundsdóttir sá um að halda uppi stuðinu með frábærri Tinu Turner sýningu ásamt dönsurum.

Sigurbjörg Kristín Óskarsdóttir, formaður Krabbavarnar í Vestmannaeyjum, segir kvöldið hafa verið frábært í alla staði og þátttöku hafa verið langt umfram væntingar. „Við erum bara rosalega þakklát fyrir frábæra mætingu, fyrir alla sem styrktu viðburðinn með einum og öðrum hætti og alla sem gáfu vinnu sína í þágu kvöldsins. Án allrar þessarar samstöðu og stuðnings væri þetta einfaldlega ekki hægt.“


Kröftug Kvennastund – Kraftur stuðningsfélag

Kraftur stóð fyrir Kröftugri Kvennastund í þriðja sinn þann 26. október síðastliðinn. Markmið kvennastundarinnar er að veita konum tækifæri til að sækja sér innblástur og kraft í reynslusögur annarra kvenna. Að þessu sinni deildu þrjár konur, þær Sunna Kristín Hilmarsdóttir, Iðunn Björk Ragnarsdóttir og Berglind Häsler, reynslu sinni af glímunni við krabbamein, hvaðan þær sæki sinn styrk og hvernig þær hafi tekist á við áskoranir í lífinu. Að lokinni framsögu kvennanna og pallborðsumræðum endaði Saga Garðarsdóttir kvöldið með uppistandi.

Á döfinni

Bleikur október er liðinn, en aðventan er handan við hornið og ýmislegt um að vera hjá aðildarfélögunum í nóvember. Sem dæmi má nefna að hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis verður boðið upp á kransagerð þann 14. nóvember og skrautritunarnámskeið 22. nóvember. Krabbameinsfélag Árnessýslu stendur sömuleiðis fyrir hurðakransagerð 23. nóvember og Krabbameinsfélag Austfjarða heldur aðventukvöld þann 30. nóvember. Þá er nóvember einnig mánuður Bláa trefilsins, árlegs átaksverkefnis Krabbameinsfélagsins Framfarar og stendur félagið fyrir fjölmörgum viðburðum tileinkuðum vitundarvakningu um krabbamein í blöðruhálskirtli. Við hvetjum áhugasama til að kynna sér það sem er á döfinni hjá aðildarfélögunum. Nánari upplýsingar má nálgast á facebook-síðum félaganna.