Nýsköpunarfyrirtækið Kúla styrkir Bleiku slaufuna
Einn af fjölmörgum samstarfs- og styrktaraðilum Bleiku slaufunnar í ár var nýsköpunarfyrirtækið Kúla en fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu og hönnun á formum úr þæfðri ull sem nýtast til að bæta hljóðvist og eru um leið einstök listaverk.
Í tilefni Bleiku slaufunnar var búið til nýtt bleiktóna efni og úr því voru framleiddar svonefndar „kúlur” sem seldar voru til styrktar starfsemi Krabbameinsfélagsins. Salan fór fram í verslunum Epal í Kringlunni og Skeifunni og seldust þær upp á aðeins 10 dögum. Hver kúla var einstök og í boði var aðeins takmarkað magn.
„Mig var búið að langa að leggja mitt að mörkum til ykkar góða starfs síðustu tvö árin og er glöð að hafa gert það loksins. Amma mín greindist með brjóstakrabbamein og lést að lokum úr lungnakrabbameini” segir Bryndís Bolladóttir listakona og hönnuður kúlunnar.