Mikilvægt að vinna í andlega áfallinu
Margrét Th. Jónsdóttir leggur áherslu á að það þurfi að vinna í andlega áfallinu (við greiningu krabbameins) alveg eins og því líkamlega.
Þegar Margrét greinist með krabbamein í skjaldkirtli árið 2005 var hún 22 ára gömul, háskólanemi í Bandaríkjunum á fótboltastyrk. Í jólafríi heima á Íslandi fann hún fyrir eymslum í hálsi en áleit þetta bara harðsperrur eftir að hafa brosað svo mikið yfir að vera komin heim.
,,En þá sáum við bungu á hálsinum og á milli jóla og nýárs hitti ég efnaskiptalækni. Hann tók sýni sem reyndist vera illkynja æxli”.
Hún segist vera frekar opin manneskja og hafa viljað ræða þetta en fann að fólkinu hennar fannst það ekki gott svo hún ákvað að það besta í stöðunni væri að loka á þetta og klára verkefnið. Svo fór hún aftur út í skólann án síns helsta stuðningsnets.
,,Svo bara líður tíminn og maður geymir andlega þáttinn einhversstaðar í líkamanum í staðinn fyrir að vinna á honum strax sem vissulega hefði verið betri leið”.
Hún leggur áherslu á að það þurfi að vinna í andlega áfallinu (við greiningu krabbameins) alveg eins og því líkamlega. Að okkur hætti til að leggja það til hliðar en það fari ekki neitt heldur sitji í líkamanum og komi fram síðar.
,,Þannig að núna 20 árum síðar er ég að ræða þetta áfall enn þá við sálfræðinginn minn og fólkið mitt, reyna að vera opin og tala um þetta”.