Lamdi í borðið og lét í sér heyra
Þegar Þórhalla, eiginkona Kolbeins Más Guðjónssonar, var send heim fárveik af spítalanum vegna plássleysis segist hann hafa lamið í borðið og látið í sér heyra.
Kolbeinn þekkir vel til þess að vera aðstandandi. Hann hefur fylgt foreldrum sínum, besta vini og eiginkonu í gegnum krabbameinsmeðferð en þau létust öll af veikindum sínum.
Þegar Þórhalla eiginkona hans var send heim fárveik af spítalanum vegna plássleysis segist hann hafa lamið í borðið og látið í sér heyra. Henni var þá komið fyrir á bráðamóttökunni sem varð að lokum til þess að búið var til pláss fyrir hana.
,,Þú vilt ekki þurfa að hugsa um hvort það sé pláss fyrir konuna þína af því að kannski er hún að deyja. Þetta er eitthvað sem þú vilt ekki þurfa fara í gegnum”.
Hann bætir við að honum finnist leiðinlegt að þurfa að gefa krabbameinssjúklingum það ráð að leika sig veikari til að fá þá þjónustu sem þau þurfa. En vill líka leggja áherslu við þá sem eru að ganga í gegnum þetta að vera þakklát fyrir það sem þau hafa.
,,Ég er ofboðslega stoltur af börnunum mínum fyrir að hafa haldið áfram með sitt líf í öllu sem gekk á. Og hvet fólk til að líta í kringum sig og þakka fyrir það sem það hefur”.