Krabbameinsrannsóknir á Íslandi
Um þriðjungur Íslendinga greinist með krabbamein á lífsleiðinni og er meðalaldur við greiningu 67 ár en rúmlega helmingur allra krabbameina greinist eftir 65 ára aldur.
Um árabil hefur október verið helgaður árvekniátaki til að vekja athygli á krabbameinum hjá konum og verðum við því áþreifanlega vör við umræðu um krabbamein þessa dagana og ekki að ástæðulausu.
Fjölgun vegna hækkandi meðalaldurs
Þeim sem greinast með krabbamein á Íslandi fjölgar ár frá ári, fyrst og fremst vegna hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar og breytingum á íbúafjölda, en einnig að einhverju marki vegna aukinnar áhættu. Fyrirséð er að þessi fjölgun mun halda áfram á komandi árum og mun krefjast markvissra viðbragða svo unnt verði að veita þeim sem þurfa nauðsynlega þjónustu.
Nýgengi, algengi og lifun
Krabbameinsskrá Íslands hefur haldið skrá um öll krabbamein sem greind eru á Íslandi frá árinu 1954. Nýlega hafa verið uppfærðar tölur yfir nýgengi, algengi og lifun vegna krabbameina á Íslandi og byggja þær á gögnum frá árunum 2019-2023. Birt eru fimm ára meðaltöl til að draga úr tilviljanakenndum sveiflum sem eru algengar vegna þess hversu fáir Íslendingar eru. Einnig hefur verið birt spá um fjölgun nýrra tilfella og algengi til ársins 2040.
Með nýgengi er átti við hversu margir greinast með krabbamein á ári miðað við íbúafjölda, algengi segir til um er hversu margir séu á lífi sem einhvern tíma hafa greinst með krabbamein og með lifun er átt við hversu lengi fólk lifir að meðaltali eftir að hafa greinst með krabbamein.
Fjölgun krabbameinstilfella
Á árunum 2019-2023 greindust að meðaltali 1988 einstaklingar með krabbamein á ári á Íslandi, 1017 karlar og 971 kona. Til samanburðar var árlegur fjöldi tilfella fyrir tímabilið þar á undan (2018-2022) 1853. Þetta er fjölgun um að meðaltali 135 einstaklinga á ári. Hafa ber í huga að á sama tíma hafa einnig orðið breytingar á íbúafjölda og aldurssamsetningu þjóðarinnar og því nauðsynlegt að leiðrétta fyrir mannfjölda og aldri til að áætla hvort að um raunverulega aukningu sé að ræða. Árlegt aldursstaðlað nýgengi af 100.000 fyrir tímabilið 2019-2023 var 609 fyrir karla og 551 fyrir konur. Til samanburðar var nýgengið fyrir tímabilið þar á undan (2018-2022) 572 fyrir karla og 528 fyrir konur, sem bendir til lítilsháttar aukningar á milli tímabila.
Á árunum 2019-2023 létust að meðaltali 641 einstaklingar árlega vegna krabbameins, 335 karlar og 306 konur. Til samanburðar létust 325 karla og 303 konur að meðaltali á ári á tímabilinu 2018-2022. Árleg aldursstöðluð dánartíðni, sem reiknast á sama hátt og nýgengi, af 100.000 fyrir tímabilið 2019-2023 er 216 fyrir karla og 173 fyrir konur. Til samanburðar var dánartíðnin fyrir tímabilið þar á undan (2018-2022) 214 fyrir karla og 174 fyrir konur. Þannig látast nánast jafn margir árlega á þessum tveimur tímabilum þrátt fyrir að nýgreiningum hafi fjölgað.
5 ára hlutfallsleg lifun, þ.e. hversu margir voru á lífi 5 árum eftir krabbameinsgreiningu, fyrir öll mein samanlögð, var 70% fyrir hvort kyn fyrir tímabilið 2019-2023. Til samanburðar var fimm ára hlutfallsleg lifun fyrir tímabilið þar á undan (2018-2022) 68% fyrir karla og 67% fyrir konur. Fjöldi einstaklinga á lífi eftir greiningu krabbameins var 18.419 í loks árs 2023 en var 17.493 í lok árs 2022.
Spá fyrir umtalsverðri aukningu
Spáð er 57% fjölgun nýrra krabbameinstilfella til ársins 2040 borið saman við árslok 2022 og fjölgar þá nýgreinungum úr 1853 í 2903 ár ári. Þetta er umtalsvert meiri hlutfallsleg aukning en á hinum norðurlöndunum og skýrist fyrst og fremst af því hversu fjölmennar kynslóðirnar sem fæddust á árunum eftir stríð voru á Íslandi í samanburði við nágrannalöndin. Því er einnig spáð að samtímis fjölgi þeim sem lifi eftir að hafa greinst með krabbamein um 54%, fari úr 17.493 í 27.348. Þetta skýrist meðal annars af árangri í greiningu og meðferð krabbameina.
Nauðsynlegt er að halda áfram skráningu og rannsóknum á krabbameinum og fjallað verður um það á málþingi ætlað almenningi á Líf og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Ísland þriðjudaginn 15.október á milli 11.15 og 12.30 á Hilton Hotel.
Sigríður Gunnarsdóttir. Forstöðumaður Rannsóknaseturs-Krabbameinsskrár hjá Krabbameinsfélagi Íslands og Prófessor við HÍ og LSH.
Sigurdís Haraldsdóttir. Krabbameinslæknir, yfirlæknir á LSH, dósent við HÍ.
Stefán Þ. Sigurðsson. Prófessor við Læknadeild HÍ.
Greinin birtist sem skoðanagrein í Vísi, 14. október 2024.