Heilsa er pólitík
Það var rammpólitískt hádegi í húsakynnum Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíðinni á miðvikudaginn en þangað hafði félagið boðið fulltrúum stjórnmálaflokka í framboði til Alþingis undir yfirskriftinni Heilsa er pólitík.
Framkvæmdastjóri félagsins, Halla Þorvaldsdóttir, fór yfir þær áskoranir sem blasa við samfélaginu út frá spám um stóraukna fjölgun krabbameinstilvika og lifenda og reifaði stefnu félagsins. Fyrirséð er að byrði af völdum krabbameina muni aukast gríðarlega á næstu árum enda er spáð allt að 57% fjölgun krabbameinstilvika á tímabilinu frá 2022 til 2040. Á sama tímabili er spáð allt að 54% aukningu á fjölda lifenda, sem margir hverjir munu þurfa sérhæfða þjónustu í langan tíma. Forstöðumaður Rannsóknaseturs – Krabbameinsskrár, Sigríður Gunnarsdóttir, lýsti fyrirsjáanlegum áhrifum á heilbrigðiskerfið, út frá þörf fyrir stórbætta aðstöðu, aukinn mannafla og meðferð, bæði tæki og lyf.
Þessum áskorunum verður ekki mætt nema með mjög samstilltum og skipulögðum aðgerðum sem þurfa að vera fullfjármagnaðar. Breiður samráðshópur hefur unnið tillögur að aðgerðum í krabbameinsmálum til ársins 2030 og upp úr þeim hafa verið unnin drög að þingsályktunartillögu. Frambjóðendur voru hvattir til að kynna sér þessa vinnu og fylkja sér um að hrinda tillögunum í framkvæmd.
Að sama skapi voru frambjóðendur eindregið hvattir til að setja forvarnir gegn krabbameinum á dagskrá af festu, því margt er hægt að gera til draga úr umræddri spá. Lækkun í nýgengi og dánartíðni af völdum lungnakrabbameins er staðfesting á áhrifum samstilltra forvarnaraðgerða, sem byggðu á fræðslu og stjórnvaldsákvörðunum. Ákvarðanirnar voru langt frá því auðveldar á sínum tíma og mjög umdeildar en hafa sannað gildi sitt. Það getur blásið fólki byr í brjóst að horfa til árangurs varðandi lungnakrabbamein þegar unnið er að því að draga úr nýgengi annarra krabbameina sem tengjast lífsháttum.
Góð þátttaka var á fundinum og fulltrúar frá nær öllum voru mættir. Við hjá Krabbameinsfélaginu þökkum fyrir heimsóknina. Við vonum að þátttakendur hafi farið vel nestaðir af fundinum, tilbúnir til að leggja sig fram um að fækka þeim sem fá krabbamein, fjölga þeim sem lifa af og vinna að því að lífsgæði fólks með og eftir krabbamein séu sem best.