Heilnæm útivist og fræðsla
Vikulegar göngu- og fróðleiksferðir fyrir fólk sem einhvern tímann hefur greinst með krabbamein og aðstandendur.
Heilnæm útivist - andleg og líkamleg heilsubót!
Annað árið í röð býður Krabbameinsfélagið, í samstarfi við Ferðafélag Íslands, upp á vikulegar göngur sem fléttaðar eru ýmiskonar fróðleik um náttúru og sögu. Námskeiðið býðst öllum sem einhvern tíma hafa greinst með krabbamein og aðstandendum þeirra.
Með þessu er haldið áfram með verkefni sem stóð allt síðastliðið ár þegar tvö aðskilin námskeið voru haldin vor og haust. Mikil almenn ánægja var meðal þátttakenda.
Markmiðið er að njóta hollrar útivistar, fræðslu og félagsskapar við fólk sem deilir reynsluheimi og stuðla þannig að betri andlegri og líkamlegri heilsu fólks sem tekst á við afleiðingar krabbameins og meðferðar vegna þess.
Umsjónarmenn og fararstjórar eru sem fyrr þau Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir frá Ferðafélagi Íslands.
Námskeiðið hefst 18. janúar og stendur fram í júní.
Fyrirkomulag og kostnaður
Gengið er að mestu á sléttu landi og ættu göngurnar almennt að henta flestum.
- Gengnar eru mismunandi leiðir á höfuðborgarsvæðinu eða í nágrenni þess.
- Gengið er á laugardögum frá 18. janúar – 14. júní, alls 21 skipti (Í fjögur skipti verður þó gengið á fimmtudögum kl.18 í stað laugardaga).
- Lagt er upp klukkan 10:00 og vara göngurnar að jafnaði í um tvo klukkutíma.
Hægt er að koma í staka göngu til að prófa án endurgjalds en annars er þátttökugjald á námskeiðinu 5.000 kr fyrir hvern þátttakanda.
Skráning: radgjof@krabb.is eða í síma 800 4040. h
Áætlun (með fyrirvara um breytingar)
Áætlunin er lögð fram með þeim fyrirvara að umsjónarmenn geta hnikað til dagsetningum til þess að mæta veðri. Ekki er heldur víst að göngur verði farnar í þeirri röð sem þær birtast hér heldur er í valdi umsjónarmanna að velja verkefni eftir aðstæðum og veðri.
- 18. jan kl. 10.00 Gengið um Elliðaárdal frá Toppstöð. Engin hækkun. Saga Elliðaárdals, fornminjar, aftökustaðir og hellar útilegumanna.
- 25. jan kl. 10.00. Gengið um Heiðmörk frá Elliðavatni að rústum í Þingnesi. Fyrsti þingstaður Íslendinga er þarna undir vatni. Óveruleg hækkun.
- 1. feb kl. 10.00. Gengið um Lækjarbotna frá Waldorf skólanum. Hellir útilegumanna heimsóttur og sagan af Eyvindi og Margréti rakin. Farið að Tröllabörnum í bakaleiðinni. Engin hækkun.
- 8. feb kl.10.00. Gengið frá Hlégarði í Mosfellsveit fram að Reykjalundi. Saga Reykjalundar og sögur af Sigurjóni á Álafossi.
- 15. feb kl.10.00. Gengið um Öskjuhlíð. 50 m. hækkun. Hersetuminjar og hafnargerð í Reykjavík.
- 22. feb kl. 10.00. Gengið inn með Úlfarsfelli frá skógræktinni. Lítil hækkun.
- 1. mars kl.10.00. Gengið út í Geldinganes að hlusta á æðarkollur og fleiri fugla. Engin hækkun.
- 8. mars kl. 10.00. Silungapollur-gengið frá Heiðmerkurafleggjara umhverfis pollinn, upp á Höfuðleðurshól og svo að sumarbústað rétt vestan við bílastæðið. Engin hækkun.
- 15. mars kl. 10.00. Hólmsheiði- gengið frá Olís inn að Fjárborg og svo til baka um Almannadal og hesthúsin. Engin hækkun.
- 20. mars (fim) kl. 18.00. Rauðavatn-gengið frá Mogga í hring umhverfis vatnið með stuttum útúrdúr. Leitað að listaverkum. Engin hækkun.
- 27. mars (fim) kl. 18.00. Hvaleyrarvatn-gengið frá bílastæði vestan við vatnið um Selhöfða og Stórhöfða. 60 m. hækkun.
- 5. apríl kl. 10.00. Grafarvogur-gengið frá kirkjunni hring um voginn með viðkomu hjá grafreitnum við gamla Grafarholt og sumarbústaðnum í Brekku. Ca 4 km. Lítil hækkun.
- 12. apríl kl. 10.00. Elliðakot-gengið frá ánni eftir veginum að Elliðakoti og rústir skoðaðar. Svo farið að Ráðagerði og til baka aftur. Engin hækkun.
- 24. apríl (fim) kl. 18.00. Elliðarárdalur-gengið frá Toppstöð yfir dalinn og upp að kanínuhúsi. Þaðan að skógarlundinum þar sem mannvistarleifar er að finna og svo yfir árnar og niður um Reiðskarð. Engin hækkun
- 1. maí (fim) Kl.18.00. Laugardalur-gengið frá sundlaug hring um dalinn um grasagarðinn og víðar.
- 10. maí kl. 10.00. Gengið frá Mosfellskirkju og inn að Laxnesi. Sagan af brauðinu dýra lesin og rifjuð upp. 200 m. hækkun.
- 17. maí kl. 10.00. Gengið frá Esjustofu fram Kollafjörð og eitthvað áleiðis upp í fjallið eftir skógarstígum. Ýmsar sögur úr Kollafirði og Ystu-Nöf. 100 m. hækkun.
- 24. maí kl. 10.00. Gengið frá Hafravatnsrétt áleiðis fram í Þormóðsdal og niður með ánni og aftur að Hafravatni. Gáð að fornum gullnámum. Óveruleg hækkun.
- 31. maí kl. 10.00 Gengið frá Gljúfrasteini að Helgufossi í fótspor Laxness og lesið úr verkum skáldsins. Engin hækkun.
- 7. jún kl. 10.00 Búrfellsgjá-gengið frá bílastæði við Vífilsstaðahlíð suður eftir gjánni og upp á Búrfellið. 60 m. hækkun.
- 14. jún kl. 10.00. Gengið frá skíðaskálanum í Hveradölum að bústað Óskars vefara á Hellisheiði með viðkomu í Flengingarbrekku. 150 m. hækkun.