Góðverkadagur Valhúsaskóla
Það var margt um manninn þegar unglingastig Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi stóð fyrir Góðverkadeginum 2024. Þau völdu að styrkja Krabbameinsfélagið um þær 886.814 kr sem söfnuðust og erum við meyr og þakklát fyrir þessa höfðinglegu gjöf.
Undirbúningur Góðverkadagsins stóð yfir í langan tíma og stofnuðu nemendur framkvæmdaráð með tveimur fulltrúum úr hverjum bekk til að tryggja að upplýsingar og verkefni skiluðu sér til allra. Kennarar skólans voru svo til aðstoðar í öllu ferlinu.
Halldóra Snorradóttir, deildarstjóri unglingstigs skólans sagði það aðdáunarvert hvernig nemendurnir skipulögðu vinnuna en þau hefðu byrjað á umræðum um þau málefni sem þau vildu safna fyrir. Umræðan fór fram í umsjónartímum bekkjanna en þau vildu safna fyrir einu málefni, fá fulltrúa þess í heimsókn til að segja frá og auka þannig vitund nemenda um málefnið. Niðurstaðan var sú að styrkja Krabbameinsfélagið með ágóðanum af Góðverkadeginum.
,,Nemendur voru með þema og seldu vörur og þjónustu innan þemans. Þannig var Karnival þema með kandíflosi, andlitsmálningu og blöðrudýrum. Mathallarþema með hamborgurum, pizzum, vöfflum og drykkjum. Fata og bókamarkaður var annað þema og happdrætti með góðum vinningum svo fátt eitt sé nefnt” útskýrir Halldóra . ,,Krakkarnir útbjuggu Való gjaldmiðil, gerðu gjaldskrá samkvæmt honum en hver seðill kostaði 250 krónur. Við erum öll í skýjunum með daginn og þau stolt af framtakinu, enda stóðu þau sig öll einstaklega vel”.
Nemandinn Linda Róbertsdóttir, var í andliltsmálunarteymi Karnivalsins. Hún segir það hafa verið svo skemmtilegt að mála andlit að hún hafi ekki viljað stoppa.
,,Ég gleymdi tímanum, var svo glöð með þetta, vildi gera eins mikið og ég gat til að hjálpa og safna” útskýrir hún en bætir við að margir hefðu líka komið með pening að gefa þeim til að styrkja meira og það hafi verið frábært.
Aðspurð segist hún ekkert hafa verið orðin þreytt í höndunum heldur málað og málað andlit, meira að segja skólastjórans sem hafði komið og beðið um að verða máluð eins og hundur í framan. ,,Ég varð svolítið hissa hve margir fullorðnir komu og vildu fá andlitsmálningu sem var mjög skemmtilegt”.
Þau Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins og Árni Reynir Alfreðsson, markaðs- og fjáröflunarstjóri hittu krakkana, ræddu málefnið og tóku á móti styrknum.
,, Það var ótrúlega gaman að hitta nemendur skólans og finna kraftinn í þessum flottu krökkum og hvað þau geta áorkað miklu með góðum stuðningi skólans síns” segir Árni Reynir Alfreðsson, markaðs- og fjáröflunarstjóri Krabbameinsfélagins ,,Við hjá Krabbameinsfélaginu erum afar meyr yfir þessari höfðinglegu gjöf nemenda í gegnum Góðverkadag Valhúsaskóla”.