Enginn faraldur krabbameina hjá ungu fólki á Íslandi
Aukning í nýgengi krabbameina hjá ungu fólki mælist minni á Norðurlöndum heldur en á heimsvísu. Sérfræðingar á Rannsókna- og skráningarsetri Krabbameinsfélags Íslands rýna hér í tölurnar.
Nýlega var birt grein í BMJ Oncology eftir Zhao og meðhöfunda sem lýsti á heimsvísu 80% aukningu á nýgengi krabbameina hjá einstaklingum á aldrinum 15-49 ára á árunum 1990-2019. Þegar nánar er rýnt í greinina kemur fram að eins mikla aukningu í nýgengi krabbameina er ekki að sjá á Norðurlöndunum.
Með hjálp NORDCAN gagnagrunnsins , sem er opinn öllum og birtir tölfræði um krabbamein á Norðurlöndunum, höfum við reiknað út nýgengi krabbameina á Íslandi í aldurshópnum 15-49 ára og borið saman við hin Norðurlöndin. Þegar skoðað er nýgengi allra greindra krabbameina í aldurshópnum 15-49 ára á árunum 1990-2021 (Mynd 1) sést að nýgengi krabbameina er algengara hjá konum en körlum í þessum aldurshópi, sem skýrist aðallega af því hversu margar konur greinast árlega með brjóstakrabbamein.
Fimm algengustu krabbamein hjá þeim 132 konum á aldrinum 15-49 ára sem greindust árlega á Íslandi (meðaltal áranna 2018-2022) eru brjóstakrabbamein, 50 talsins, ristil- og endaþarmskrabbamein, 10 talsins, krabbamein í heila og miðtaugakerfi, 9 talsins, leghálskrabbamein, 9 talsins og sortuæxli í húð, 8 talsins.
Til samanburðar greindist árlega að meðaltali 71 karlmaður á aldrinum 15–49 ára með krabbamein á Íslandi og voru algengustu meinin eistnakrabbamein, 10 talsins, ristil- og endaþarmskrabbamein, 8 talsins, krabbamein í heila og miðtaugakerfi, 8 talsins, eitilfrumuæxli (Non-Hodgkins), 5 talsins, nýrnakrabbamein, 4 talsins og sortuæxli í húð, 4 talsins.
Við sjáum einnig á myndinni að aukning varð í aldursstöðluðu nýgengi krabbameina hjá konum á Íslandi á árunum 1990 -2021 sem nam 36% en hjá karlmönnum hefur orðið um 5% lækkun. Aukningin í nýgengi hjá konum sést aðallega á árunum fram til aldamóta en hefur lítið breyst eftir það. Svipar það mjög til þeirrar þróunar á nýgengi sem orðið hefur á Norðurlöndunum öllum en er mun lægri en það sem Zhao og meðhöfundar lýstu á heimsvísu. Ein ástæða minni aukningar er að dregið hefur mjög úr reykingum á Norðurlöndunum og þar með hætti nýgengi reykingatengdra meina að aukast sem sést vel hjá yngra fólki. Ekki hefur verið sama góða þróun á þessu sviði í öllum löndum heims.
Mynd 1: Nýgengi og dánartíðni krabbameina hjá körlum og konum, á aldrinum 15-49 ára, á Íslandi og öllum Norðurlöndunum, árin 1990-2021, skilgreint sem fjöldi tilfella á hverja 100.000 íbúa. Notaður er Norrænn aldursstaðall og sléttun milli ára.
Ef skoðuð er dánartíðni fyrir sama aldurshóp og greiningartímabil (Mynd 1) sjáum við lækkun í dánartíðni krabbameina hjá konum á Íslandi, sem var 41 tilfelli á hverja 100.000 íbúa (Norrænn aldursstaðall og sléttun milli ára) árið 1990 en 23 tilfelli á hverja 100.000 íbúa árið 2021. Dánartíðni hefur því lækkað um 44%. Hjá karlmönnum er lækkun á dánartíðni um 51%. Þessi þróun er mjög svipuð og á Norðurlöndunum í heild.
Samantekið er ekki að sjá að neinn faraldur hafi orðið í aukningu krabbameina hjá ungu fólki síðustu þrjá áratugina á Norðurlöndunum að Íslandi meðtöldu sem er ólíkt því sem lýst hefur verið á heimsvísu. Á þessum tíma hefur fjöldi krabbameinstilfella aukist mikið á Íslandi en það skýrist fyrst og fremst af fjölgun einstaklinga í eldri aldurshópum þar sem krabbameinsáhætta er mun meiri.
Lækkandi dánartíðni gefur til kynna framfarir í greiningu og meðferð krabbameina á Íslandi.
Mikilvægt er að hvetja áfram til heilsusamlegs lífernis sem minnkar krabbameinsáhættu og að auka þátttöku kvenna í skimun sem greinir brjósta- og leghálskrabbamein á lægri og læknanlegri stigum.
Lesa grein á Heimildinni hér.