„Ef ég held röddinni þá læt ég reyna á þetta“
Ljóðskáldið og rithöfundurinn Anton Helgi Jónsson stóð fyrir einstökum viðburði á Menningarnótt og safnaði um leið áheitum til styrktar Krabbameinsfélaginu. Viðburðurinn fékk heitið Ljóðamaraþon og gekk út á ljóðalestur undir berum himni í jafn langan tíma og sem nemur heimsmeti í maraþonhlaupi, eða í rúma tvo klukkutíma. Anton Helgi segir hér frá krabbameininu sem uppgötvaðist fyrir tilviljun, kirkjuskáldum og kráarskáldum og öðruvísi maraþonundirbúningi.
„Ég hef aldrei haft neina sérstaka ástæðu til að gruna eitt né neitt um krabbamein og aldrei hugsað af alvöru um að ég fengi krabbamein,“ segir Anton Helgi. „Í byrjun mars gerðist það hins vegar að ég fékk heiftarlega sýkingu í öndunarfæri. Þetta var einhver versta pest sem ég hef fengið, en hún var þrátt fyrir allt lán í óláni. Þegar verið var að skoða mig og rannsaka sást blettur í vinstra lunganu, sem reyndist síðan vera lungnakrabbamein.“
Þakklátur þegar röddin kom til baka
Tveir þriðju hlutar lungans voru fjarlægðir með skurðaðgerð í júní. Aðgerðin heppnaðist vel en hefði getað haft áhrif á rödd Antons Helga. „Læknirinn sagðist hafa þurft að fara ansi nálægt raddböndunum og fyrst eftir aðgerð var ég svo til raddlaus. Ég held mikið upp á röddina og var þakklátur þegar hún kom til baka. Þess vegna fannst mér við hæfi að fagna endurkomu hennar með því að láta reyna á hana.“ Á meðan Anton Helgi lá inni var undirbúningur fyrir Reykjavíkurmaraþonið í fullum gangi og varð það kveikjan að verkefninu.
„Mér datt þetta í hug þegar ég var að hugsa um hlauparana,“ segir Anton Helgi. „Ég hef ekki hlaupið mikið um ævina en er mikill göngumaður og ég vissi að ég yrði ekki búinn að vinna upp þrekið eftir aðgerðina þegar maraþonið færi fram. Ég hef notið einstakrar læknismeðferðar og aðhlynningar á Landspítalanum og mig langaði til að þakka fyrir mig og minna á nauðsyn krabbameinsfræðslu með einhverjum sérstökum hætti. Ég gat ekki hlaupið, en ég gat notað röddina.“ Eftir mikla umhugsun varð niðurstaðan sú að standa fyrir maraþonljóðaupplestri og taka mið af heimsmeti karla í maraþonhlaupi sem er 2:01:09 og lesa upp í rúmlega tvo tíma.
„Venjulega þegar maður les upp með öðrum skáldum les maður í svona sjö til tíu mínútur og ef að maður er sjálfur með dagskrá miðar maður við eitthvað á bilinu tuttugu til fjörutíu mínútur. Mér tókst hins vegar að láta upplesturinn vara lengur en sem nemur heimsmetinu og röddin hélt miklu betur en ég hefði nokkurn tímann trúað. Ég var hins vegar gríðarlega þreyttur eftir þetta, enda stutt síðan aðgerðin var, og ég lá allan sunnudaginn,“ segir Anton Helgi, og bætir við að það sé mikið þolinmæðisverk að vinna sig til baka eftir svona veikindi.
Ljóðaupplestur í Mjódd
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Anton Helgi býður upp á ljóðalestur fyrir vegfarendur utandyra. „Það er mjög sérstakt og ögrandi að standa svona úti og reyna að ná athygli fólks og halda henni. En þetta form á ljóðalestri hentar ekki öllum. Ég segi stundum að skáld skiptist í tvo hópa varðandi upplestra; annars vegar í kirkjuskáld og hins vegar í kráarskáld. Kirkjuskáldin þrífast í þögn og vilja geta heyrt saumnál detta, en kráarskáldin þenja sig og lesa í kapp við glasaglamur og frammíköll. Ég er kannski meira í þessum síðari hópi og hef notið þess að lesa upp á krám og veitingahúsum í gegnum tíðina.“
Anton Helgi segir ljóðalestur geta átt við á ólíklegustu stöðum og rifjar upp að fyrir nokkrum árum hafi hann lesið upp á fjallatindum í morgungöngum Ferðafélagsins en einna eftirminnilegastur sé þó gjörningur sem hann stóð fyrir á Óperudögum í Mjóddinni. „Ég stóð heilan dag á göngugötunni og stoppaði fólk og bauðst til að lesa fyrir það ljóð. Það voru margir sem voru til í að hlusta en ein kona er mér sérlega minnisstæð. Ég var með alls konar ljóðabækur meðferðis og hún bað mig um að lesa Hótel jörð eftir Tómas Guðmundsson. Hún var hins vegar svo feimin við mig að hún gat ekki staðið andspænis mér og horft á mig, þannig að hún stóð fyrir aftan mig og hlustaði. Þarna stóðum við í miðri Mjóddinni, ég las fyrir hana ljóð og hún lagði við eyrun, alveg hugfangin. Það þótti mér fallegt.“
Hugleiðir út frá málverkum
Anton Helgi segist hafa verið ákveðinn frá upphafi veikindanna að hann ætlaði að opna umræðuna og tala um þau. „Ég veit ekki alveg hvaðan hugmyndin kom, en ég hef verið að birta stuttar hugleiðingar um veikindin á Facebook-síðunni minni, sem er svona minn helsti miðill. Ég hef tengt hugleiðingarnar við málverk sem ég finn á spítalagöngunum.“ Anton Helgi segir vandmeðfarið að yrkja um veikindin, því það geti verið erfitt að finna réttu nálgunina. Hann segist ekki enn hafa ort um krabbameinið en hann á hins vegar nokkur ljóð frá fyrrri tíð sem má beint og óbeint tengja við veikindi og krabbamein og las þau upp á meðan á maraþoninu stóð. Eitt þeirra má finna í niðurlagi viðtalsins, en það ljóð birtist upphaflega í bókinni Ljóð af ættarmóti sem byggist á vangaveltum og einræðum fólks á ættarmóti. Bókin kom út á prenti árið 2010 en á vefsíðu skáldsins er líka hægt að lesa hana og fleiri verk.
Söfnunarfé varið til fræðslu
Gestum og gangandi bauðst eins og áður segir að styrkja verkefnið með frjálsum framlögum sem runnu óskipt til Krabbameinsfélagsins og söfnuðust 158.000 krónur sem verða nýttar til fræðslu um krabbamein og afleiðingar þess. Anton Helgi vill koma á framfæri þökkum til allra sem styrktu verkefnið. Krabbameinsfélagið þakkar Antoni Helga sömuleiðis kærlega fyrir framtakið og óskar honum áframhaldandi góðs gengis í endurhæfingu sinni.
Ljóð eftir Anton Helga: