Beint í efni
Sverrir

Ef ég hefði brotn­að þá hefði ým­is­legt annað brotn­að líka

,,Ef ég hefði brotnað og auðvitað bognaði ég stundum, en ef ég hefði brotnað þá hefði ýmislegt annað brotnað líka” segir Sverrir Scheving Thorsteinsson.

Sverrir segir að það hafi verið honum mjög mikilvægt að vera eins heilbrigður og hægt var til að geta haldið utanum fjölskylduna sína eftir að eiginkona hans heitin greindist með krabbamein í brjósti.

Það gerði hann með því að gæta að svefni, hreyfa sig reglulega, passa matarræðið og sinna áhugamálum og vinum.

,,Ef ég hefði brotnað og auðvitað bognaði ég stundum, en ef ég hefði brotnað þá hefði ýmislegt annað brotnað líka”.

Til þess að finna styrkinn þegar honum leið illa til að fara í ræktina, hafi hann þurft að líta inn á við og vinna í sjálfum sér, viðurkenna allar tilfinningarnar sem hann segir geta verið flóknar og erfiðar. Eða koma þeim í heilbrigðan farveg til þess að þær fái útrás.

,,Ég hef nýtt mér sálfræðiaðstoðina hjá Krabbameinsfélaginu og jafningjastuðninginn. Bæði eiginkonan mín heitin og fólk í kringum okkur hefur komið þangað og sótt aðstoð”.

Sverrir segir að því miður eigi margir eftir að ganga í gegnum það sem þau hafa farið í gegnum. Það sé því gott fyrir fólk að vita að það sé hjálp þarna úti og hægt að fá aðstoð við alla þessa hluti, stuðning jafningja og sálfræðinga og allskonar fyrir börnin.

Hann segist vera þakklátari í dag. Nýtur þess að drekka morgunkaffið í rólegheitum, heyra hægt og rólega líf kvikna í húsinu og náttúrunni. Honum finnst gott að heyra vekjaraklukkurnar hringja og stúlkurnar trítla og fá sér morgunmat og njóta þess að vera saman í smá stund áður en hann heldur út í daginn.

,,Já, ætli ég sé ekki þakklátari fyrir vikið. En það er ekkert sjálfsagt að ná þeim stað”.