Beint í efni

Dag­ur sjálf­boða­liða er í dag

Krabbameinsfélagið þakkar ykkur kæru sjálfboðaliðar af heilum hug, ykkar er dagurinn í dag! Sjálfboðaliðar Krabbameinsfélaganna eru fjölmargir, alls staðar á landinu og eru meðal þeirra sem gera félaginu kleift að standa við bakið á fjölmörgum fjölskyldum sem þurfa að takast á við krabbamein í sínu daglega lífi.

Á alþjóðlegum degi sjálfboðaliða, sem er í dag 5. desember, er um allan heim vakin athygli á því mikilvæga hlutverki sem sjálfboðaliðar sinna í samfélaginu. Dagurinn á rætur sínar að rekja til átaks Sameinuðu þjóðanna sem vilja minna á fjölbreyttu starfi sjálfboðaliða sem oft skiptir algerlega sköpum í samfélaginu. Krabbameinsfélag Íslands tekur undir það og vill nýta þennan dag til þess að þakka sjálfboðaliðum sem leggja málefnum félagsins lið með því að gefa tíma sinn og krafta til málstaðarins.

Framtíðarsýn Krabbameinsfélagsins er að færri fá krabbameini, fleiri læknist, lifi lengi og njóti lífsins – með og eftir krabbamein.

Sjálfboðaliðar eiga mikilvæga hlutdeild í starfsemi félagsins

Aðildarfélög Krabbameinsfélagsins eru 27 talsins og eru með starfsemi víða um landið. Þeim er stjórnað af sjálfboðaliðum sem sinna flestöllu starfi félaganna, þar á meðal að veita jafningjastuðning og sinna fræðslustörfum auk þess að skipuleggja viðburði og námskeið í sínum heimabæ fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Sjálfboðaliðarnir eru oft á tíðum fólkið bakvið tjöldin en á sama tíma fólkið sem oftar en ekki knýr hlutina áfram. Það má segja að sjálfboðaliðastörf séu eins og gjöf sem heldur áfram að gefa, því þau gagnast líka þeim sem sinna þeim. Rannsóknir sýna að það að sinna sjálfboðaliðastarfi eykur vellíðan, það er gott að gera gagn.

Kæru sjálfboðaliðar – Krabbameinsfélagið þakkar ykkur af heilum hug, ykkar er dagurinn í dag!

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins

Sjálfboðaliðar setja upp jólaseríu
Styrkleikar á Egilsstöðum
Dagur sjálfboðaliða