Dagatal með 12 flottum konum til styrktar Bleiku slaufunni
12 konur stigu langt út fyrir þægindarammann til að styrkja mikilvægt málefni: Bleiku slaufuna og baráttuna gegn krabbameinum hjá konum. 12 konur sem hafa allar sjálfar reynslu af því hafa fengið krabbamein, eru með krabbamein eða hafa farið í áhættuminnkandi aðgerðir vegna stóraukinnar hættu á að greinast með krabbamein.
Hugmyndasmiður, hönnuður og framleiðandi dagatalsins er Aníta Rún Guðnýjardóttur, eigandi undirfataverslunarinnar Sassy. Aníta hefur áður styrkt Bleiku slaufuna en langaði að gera það af enn meiri krafti í ár og fékk þá hugmyndina að búa til dagatal fyrir árið 2025. Tengdamóðir Anítu lést úr brjóstakrabbameini langt fyrir aldur fram og með dagatalinu og söfnuninni fyrir Bleiku slaufuna heiðrar hún minningu hennar.
Allur ágóði af sölu dagatalsins rennur til Bleiku slaufunnar.
Dagatalið er tilvalin jólagjöf eða tækifærisgjöf fyrir þá sem vilja láta gott af sér leiða um leið og þeir gleðja aðra.
Með hverri ljósmynd á dagatalinu fylgir stuttur en áhrifaríkur texti með sögu hverrar konu. Sögurnar eru persónuleg reynsla hverrar og einnar, en það sem skín í gegn er að við tengjumst öll í baráttunni gegn krabbameini, hvernig svo sem reynsla okkar er.
Fyrir utan að styðja við rannsóknir á brjóstakrabbameini og vekja athygli á krabbameinum hjá konum þá er markmiðið með verkefninu einnig að sýna að það skiptir ekki máli hvort við séum með eitt brjóst eða tvö, flatbrjósta eða uppbyggð brjóst; við getum öll verið sexy!
- Hægt er að kaupa dagatalið í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins, hjá Sassy, Dalvegi 30 og í vefverslun Sassy.
Dagatalið er samstarfsverkefni Sassy, Bleiku slaufunnar, AnaOno, Þórdísar Erlu Ágústsdóttur ljósmyndara og Brakkasamtakanna. Konurnar 12 eru allar í undirfötum frá AnaOno sem eru sérhönnuð fyrir konur sem hafa þurft að fara í aðgerðir vegna krabbameins.
Aníta Rún stofnaði undirfataverslunina Sassy árið 2019. Verslunin er með fjölbreytt úrval af alls konar undirfatnaði, þar á meðal vörur frá AnaOno.
AnaOno undirfatamerkið er bandarískt og stofnandi þess er Dana Donofree, sem greindist sjálf með brjóstakrabbamein þegar hún var aðeins 27 ára. Eftir greininguna og í sínu aðgerðarferli fannst henni skorta falleg, þægileg og kynæsandi undirföt fyrir konur sem hafa farið í brjóstnámsaðgerðir. Hún tók þess vegna málin í sínar eigin hendur og fór að hanna undirföt og stofnaði fyrirtækið. Leiðir þeirra Anítu lágu saman í tengslum við fjáröflunarviðburð fyrir krabbamein á lokastigi á tískuvikunni í New York árið 2020. Á viðburðinum ganga konur um tískupallana í undirfötum frá AnaOno. Brakkasamtökin aðstoðu þetta ár með ýmis verkefni. Aníta hitti fyrir tilviljun stjórnarmeðlimi Brakkasamtakanna í fluginu, sem segja Anítu frá vörumerkinu og úr varð að vörur AnaOno eru fáanlegar hjá Sassy. Dönu þykir vænt um að ná til fólks utan Bandaríkjanna og segist hafa sent brjóstahaldara til allra landa í heiminum, sem gerir hana mjög stolta.
Dana var viðstödd opnunarviðburð dagatalsins á Íslandi sem var haldin hjá Sassy og segir það hafa haft mikil áhrif á sig. Þar var svo greinilegt hversu mikla ást og sterkan stuðning krabbameinsgreindir og arfberar sýna hverjum öðrum á Íslandi. Einnig snerti það hana að sjá þann mikla fjölda af fjölskyldum sem hafa orðið fyrir áhrifum af krabbameinum og BRCA á Íslandi.
Þórdís Erla tók allar ljósmyndirnar fyrir dagatalið af natni og fagmennsku. Þórdís er sjálf BRCA2 arfberi með sterka fjölskyldusögu um krabbamein. Hún hefur mikla reynslu af ljósmyndun, kennir ljósmyndun og var um árabil ljósmyndari á Landspítalanum. Einnig tók hún áhrifaríkar myndir fyrir ljósmyndasýninguna Saga Sóleyjar – Of ung fyrir krabbamein? sem fór hringinn í kringum um landið á vegum Brakkasamtakanna og vakti athygli á BRCA og arfgengu krabbameini.