Beint í efni

Bylt­ing í bar­átt­unni við brjósta­krabba­mein - stönd­um sam­an

Brjóstakrabbamein hafa langflestir Íslendingar komist í kynni við með einum eða öðrum hætti. Á síðasta ári var þátttaka kvenna í brjóstaskimun ekki nema 56% en með skimunum er hægt að greina brjóstakrabbamein áður en það veldur einkennum. Það eykur batahorfur og getur bjargað mannslífum.  

Á síðasta ári náðist í gegn stórt baráttumál Krabbameinsfélagsins til að auka þátttöku kvenna í brjóstaskimun, þegar komugjald var lækkað. Eftir stendur að einfalda bókunarferlið, sem félagið hefur lengi talað fyrir.  

Krabbameinsfélagið og Íslandsbanki hafa tekið höndum saman um að fjármagna kaup á nýrri stafrænni bókunarlausn fyrir Brjóstamiðstöð Landspítala. Lausnin er til og kostar 20 milljónir króna. Með henni  verður hægt að senda konum bókun sem einfalt er fyrir þær að breyta rafrænt. Málið er afar brýnt enda hafa kannanir sýnt að helsta fyrirstaðan fyrir þátttöku kvenna í brjóstaskimun er að þær þurfi sjálfar að panta tíma, það ferst oft fyrir í annríki dagsins. Þessu er því brýnt að breyta. 

Krabbameinsfélagið styður verkefnið í samstarfi við Íslandsbanka sem aðalstyrktaraðila. Félagið og Íslandsbanki leita nú liðsinnis fyrirtækja til að styðja verkefnið en Íslandsbanki mun leggja krónu á móti hverri krónu sem safnast.  

Krabbameinsfélagið er almannaheillafélag og eru styrkirnir því frádráttarbærir frá skatti.  

Með því að taka höndum saman getum við bætt lífshorfur og lífsgæði kvenna með brjóstakrabbamein hér á landi. 

Ef þú vilt fá frekari upplýsingar eða styðja verkefnið biðjum við þig að senda skeyti á krabb@krabb.is