Bleiki dagurinn er í dag
Við heyrum það á hverjum einasta degi hjá félaginu. Hvað þessi bleiki stuðningur skiptir miklu máli fyrir allar þær konur sem eru að glíma við krabbamein í dag, eða hafa háð þá glímu, fjölskyldur þeirra og fjölskyldur þeirra sem hafa misst sínar konur úr krabbameinum. Það skiptir máli að þið vitið að þið eruð að gera eitthvað sem skiptir máli.
Hápunktur Bleiku slaufunnar, árlegs árvekni- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélagsins, er Bleiki dagurinn sem er í dag. Bleiki dagurinn hefur notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár og er haldinn hátíðlegur um land allt. Á Bleika daginn er hefð fyrir því að bera Bleiku slaufuna, klæðast bleiku, halda bleik boð, gæða sér á bleiku bakkelsi og lýsa skammdegið bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein upplifi stuðning og samstöðu.
https://www.youtube.com/watch?v=pQBp2m4G5SY
Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, segir að þótt Bleiki dagurinn sé tilefni til þess að gleðjast með vinnufélögunum, vinum og fjölskyldu, þá risti hann líka dýpra. „Það heyrum við á hverjum einasta degi hjá félaginu. Hvað þessi bleiki stuðningur skiptir miklu máli fyrir allar þær konur sem eru að glíma við krabbamein í dag, eða hafa háð þá glímu, fjölskyldur þeirra og fjölskyldur þeirra sem hafa misst sínar konur úr krabbameinum. Það skiptir máli að þið vitið að þið eruð að gera eitthvað sem skiptir máli.“
Hrefna Eyþórsdóttir, formaður og starfsmaður Krabbameinsfélags Austfjarða, sagði Krabbameinsfélaginu sögu sína í tengslum við átakið í ár og ræddi í því samhengi um mikilvægi þessa bleika stuðnings. „Ég er rosa þakklát að geta borið slaufuna. Það merkir auðvitað það að ég læknaðist af mínum sjúkdómi og ég ber hana líka til heiðurs þeim sem hafa tapað baráttunni. Það er svo gaman að sjá alla aðra bera hana, því mér finnst það vera fyrir mig og alla hina og mér finnst það sýna það bakland sem við eigum í samfélaginu.“
Krabbameinsfélagið hvetur því öll til að gera sér glaðan dag, vera bleik fyrir okkur öll, og sýna þannig stuðning í verki, því hann skiptir svo sannarlega máli. Krabbameinsfélagið tekur einnig fagnandi á móti bleiku myndefni í gegnum bleikaslaufan@krabb.is eða með merkingum á samfélagsmiðlum, til að hægt sé að deila stemningunni sem víðast.