Alþjóðlegi HPV-dagurinn er í dag
HPV-bólusetningar draga verulega úr áhættu á leghálskrabbameini, en einnig fleiri tegundum krabbameina.
Til eru margar tegundir HPV-veira (Human Papilloma Virus), en ákveðnar tegundir, sem berast milli einstaklinga við kynlíf, geta valdið frumubreytingum sem geta þróast yfir í krabbamein.
HPV-sýkingar eru mjög algengar, sérstaklega hjá ungu fólki sem lifir virku kynlífi. Í langflestum tilfellum ganga þær til baka af sjálfu sér, en stundum verður veirusýkingin viðvarandi og þá geta frumubreytingar þróast yfir í krabbamein. Algengast er að þetta gerist í leghálsi kvenna, en HPV-sýkingar geta einnig valdið krabbameini í ytri kynfærum, endaþarmi, munnholi og hálsi bæði karla og kvenna.
Á Íslandi hófst HPV-bólusetning fyrir 12 ára stúlkur árið 2011. Árið 2023 var svo einnig farið að bólusetja drengi, auk þess sem þá var einnig farið að nota aðra tegund bóluefnis (Gardasil) sem er breiðvirkara en það sem áður var notað og veitir því betri vörn.
Þátttaka í HPV-bólusetningum hérlendis er mjög góð og var nálægt 90% árið 2023.
Árið 2020 hóf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) alþjóðlegt átak sem miðar að því á heimsvísu að útrýma nær alveg leghálskrabbameini með víðtækum HPV-bólusetningum, skimunum og meðferð við leghálskrabbameini á forstigum.