Beint í efni

Að vera með krabba­mein er full vinna

Þrátt fyrir að allar rannsóknir og niðurstöður bendi til þess að allt sé að þokast í rétta átt hjá Michael Claxton, upplifði hann mikinn og ágengan ótta og áhyggjur milli læknisheimsókna og eftirlits. Óttinn við að endurgreinast var farinn að hafa hamlandi áhrif á líf hans þegar honum var loks bent á námskeið Krabbameinsfélagsins, Óttinn við að endurgreinast.

„Ég greindist í janúar 2023. Meðferðin fór vel af stað, fyrst geislameðferð og lyfjameðferð í kjölfarið. Það liðu þrjár vikur á milli lyfjagjafa og ekki var talin þörf á frekari meðferð eftir það en fylgst vel með mér. Ég lenti í smá basli með nýrun þegar í ljós kom að þau voru allt í einu hætt að þjóna mér og það var komið á hættulegt stig. Ég fékk góða aðhlynningu, allt var skoðað vel og ég hef ekki lent í neinu síðan en fer í eftirlit á þriggja mánaða fresti,“ útskýrir Michael. 

Þegar kemur að reglubundnu eftirliti byrjar Michael á því að fara í myndatöku og viku síðar hittir hann læknirinn sinn. Biðin eftir niðurstöðunum, dagana á milli myndatöku og læknistíma, var farin að hafa mikil áhrif á andlega líðan hans sem varð slæm með þungum kvíða. Óttinn við að fá slæmar fréttir var mikill og Michael segist hafa verið orðinn erfiður í skapi, pirraður, leiður og liðið verulega illa. 

„Samt var allt gott að frétta eftir síðustu skoðun og meinið heldur áfram að minnka. Ég finn ekki fyrir aukaverkunum en kvíðinn er samt þarna. Að liggja á bekknum í myndatökunni, stara á nafnið mitt og kennitöluna á skjánum og hugsa: „Jesús. Hvað ef þeir finna eitthvað núna?“ 

Þungar en ekki endilega óvæntar fréttir

„Áður en ég greindist hafði ég verið með mjög mikla verki en ég fékk bara vöðvabólgulyf og fór í sjúkraþjálfun. Fór svo loksins í myndatöku í Domus og þá varð ljóst að það var eitthvað meira að. Þetta kom mér satt að segja ekkert mikið á óvart en samt var auðvitað högg að fá þetta staðfest. Eftir að allt var svo sett í gang með geisla- og svo lyfjameðferð gekk vel með líkamlegu hliðina en andlega líðanin var ekki nógu góð. Ég talaði við lækninn minn og sagði honum að ég væri að glíma við smá þunglyndi. Hún ráðlagði mér að fá aðstoð hjá sálfræðingi Krabbameinsfélagsins en í sama húsi er líka boðið upp á námskeið sem fæst við einmitt vandamálið mitt, það er að segja óttann við að endurgreinast. Ég fór á það námskeið, fannst það alveg frábært og það hefur hjálpað mér mikið. Ég geri mér til dæmis núna grein fyrir að allir verkir eða eymsli sem ég finn í kroppnum þurfa ekki endilega að tengjast krabbameininu. 

Samskiptin breytast við greiningu

Michael kemur upphaflega frá Englandi en fluttist til Íslands árið 1973,  stofnaði fjölskyldu og settist hér að. Systir hans var aðeins 32 ára og móðir tveggja ungra stúlkna þegar hún greindist með Hodgkins-sjúkdóminn, sem er ákveðin gerð eitilfrumukrabbameins. 

„Það er þetta með samskiptin, þau voru ekki svo mikil á þessum árum.  Fjölskylda mín úti sagði mér ekki hversu alvarleg veikindi hennar voru. Það var ekki fyrr en seinna sem bróðir minn sagði mér að systir okkar hefði greinst með þennan sjúkdóm og verið mjög veik eftir meðferðina. Fram að því að hún veiktist og síðan lést hafði ég aldrei hugsað mikið út í krabbamein. Ég hef verið heppinn með hversu vel meðferðin hefur gengið hjá mér og því hefur verið mjög einkennilegt að upplifa þessar neikvæðu tilfinningar og mikla kvíða inn á milli.  En ég reyni að horfa björtum augum á lífið eins og það hversu gaman það er þegar við fjölskyldan hittumst, börnin, tengdabörnin og barnabörnin og við tölum um eitthvað annað. Þetta hefur reynt mikið á konuna mína, eins og oft vill vera með aðstandendur. En við erum harðákveðin í því að fara núna í ferð sem við höfðum frestað vegna veikindanna. Sama hvaða niðurstöður ég fæ úr rannsóknum þá erum við ákveðin í að fara í siglingu í byrjun næsta árs. Lífið heldur áfram.“


Krabbameinið hafði ekki áhrif á hallamálskunnáttuna 

Michael er með nokkuð sérhæfða menntun og þrátt fyrir að vera 75 ára gamall og hættur að vinna kom það oft fyrir að fólk leitaði ráða hjá honum varðandi ýmis verkefni. Slíkt hætti hins vegar alveg eftir að hann greindist.

„Ég vil ekki liggja bara uppi í sófa af því að ég greindist með krabbamein en um leið og ég greindist hætti fólk að leita til mín. En ég kann alveg á hallamál eins og ég gerði áður en ég fékk krabbamein. Þetta er kannski ein birtingarmynd veikindanna. Samskiptin við vini og fjölskyldu verða öðruvísi. Það er full vinna að greinast með krabbamein og ef ég lít yfir dagatalið mitt þá hafa þetta verið endalausir læknistímar, blóðprufur, sjúkraþjálfun og tímar hingað og þangað. Og þetta tekur virkilega á, bæði líkamlega en ekki síst andlega. Ég var oft í krefjandi verkefnum á mínum starfsferli en þetta er allt annað og miklu erfiðara. Aftur, þá hefur þetta verið mjög erfitt fyrir konuna mína þó hún tali ekki mikið um það en ég veit bara að þetta er erfitt fyrir hana og börnin okkar. Mig langar til að geta verið til staðar og hjálpað börnunum mínum en ég veit líka að ég er ekki sami maður og ég var áður en ég greindist og það er takmarkað sem ég get gert. Meinið greindist í nýrum og hrygg og þar er skemmd sem gerir það að verkum að ég er með klemmdar taugar. Ég fer þar af leiðandi ekki aftur upp á þak að smíða með syni mínum. En ég hef til dæmis unnið mikið í ljósmyndun og þykir gaman að taka myndir, flokka og skipuleggja. Það má því segja að verkefnin taki á sig aðra mynd.“

 Á næstu dögum er komið að reglubundnu eftirliti hjá Michael. 
„Já, myndataka, viðtal og blóðprufa núna í desember. Það leggst miklu betur í mig í þetta skiptið. Það var líka gott að fá glærurnar eftir námskeiðið til að geta lesið þær yfir ef mér líður þannig.“

Michael Claxton er bjartsýnn og hlakkar til siglingarinnar með eiginkonunni á nýju ári.

Michael Claxton og eiginkona hans Jórunn Guðmundsdóttir