17. nóvember - baráttudagur gegn krabbameini í leghálsi
Leghálskrabbamein gæti orðið fyrsta tegund krabbameins sem tekst að uppræta og er 17. nóvember tileinkaður baráttunni gegn leghálskrabbameini.
Árið 2018 setti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) fram áætlun sem miðar að því að útrýma leghálskrabbameini sem lýðheilsuvandamáli á heimsvísu. Lykilþættir áætlunarinnar snúa að bólusetningu gegn HPV-veirum og leghálsskimun. Í löndum þar sem slíkar aðgerðir eru af skornum skammti eða ekki til staðar er leghálskrabbamein algeng dánarorsök kvenna af völdum krabbameins.
Stefnt er að því að nýgengi leghálskrabbameina verði minni en 4 tilfelli á hverjar 100.000 konur.
Ísland ætti að hafa forsendur til að ná markmiðinu enda hefur verið skimað fyrir leghálskrabbameini hér frá árinu 1964 auk þess sem bólusetning hófst árið 2011. Til að svo megi verða þarf þátttaka í skimun þó að aukast. Nýgengi leghálskrabbameina hérlendis er nú 10 tilfelli á hverjar 100.000 konur.
Bólusetningar og krabbamein
Næstum öll tilfelli leghálskrabbameina (99%) stafa af HPV-veirum sem smitast helst við kynlíf. Til eru fjölmargar gerðir af HPV-veirum og get nokkrar þeirra valdið krabbameini. Leghálskrabbamein er algengast, en HPV getur einnig valdið krabbameini í endaþarmi, leggöngum, kynfærum, hálsi, munni og koki.
Hægt er fyrirbyggja HPV smit með bólusetningu og hér á landi hófst bólusetning 12 ára stúlkna árið 2011. Fyrst var bóluefnið Cervarix notað sem veitir um 70% vörn gegn leghálskrabbameini en árið 2023 var tekið upp breiðvirkara bóluefni, Gardasil9, sem veitir um 90% vörn. Sama ár var einnig farið að bólusetja 12 ára drengi gegn HVP-veirum.
Leghálsskimun
Á Íslandi er skimað fyrir leghálskrabbameini hjá konum á aldrinum 23-64 ára og fá þær boð með reglubundnum hætti. Í leghálsskimun er hægt að greina hvort frumubreytingar eða krabbamein sé til staðar. Ef alvarlegar forstigsbreytingar finnast er hægt að fjarlægja þær og koma þannig í veg fyrir að krabbamein myndist. Ef krabbamein hefur náð að þróast er mikilvægt að það finnist sem fyrst, þá eru mestar líkur á að meðferð beri árangur.
Því miður hefur dregið verulega úr þátttöku í leghálsskimun á Íslandi á síðustu árum, en vísbendingar eru þó um að hún fari nú vaxandi og var þátttakan 61,5% árið 2023. Við hvetjum allar konur sem fá boð í leghálsskimun til að bóka strax tíma. Á heilsugæslustöðvum sjá ljósmæður um að taka sýni og hægt er að bóka tíma á Heilsuveru (mínar síður).
Dagurinn í dag er áminning um mikilvægi málefnisins og hvatning til að ná betri árangri því það er hægt.