Beint í efni

Að­al­fund­ur 25. maí 2024

Hér að neðan er að finna gögn vegna aðalfundar Krabbameinsfélags Íslands 25. maí 2024.

    • Fundarstjóri: Kristján B. Thorlacius
    • Fundarritari: Hrefna Stefánsdóttir
  • Ársreikningurinn   er endurskoðaður, samþykktur af stjórn, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins og félagskjörnum skoðunarmönnum og lagður fram til samþykktar aðalfundar.

  • Starfs- og fjárhagsáætlun kynnt á fundinum.

  • Engar lagabreytingar liggja fyrir fundinum.

  • Frá uppstillingarnefnd:

    Uppstillingarnefnd Krabbameinsfélags Íslands hefur unnið samkvæmt vinnureglum félagsins um kjör í stjórn félagsins og kosningu félagslegra endurskoðenda (skoðunarmanna), sem voru samþykktar á aðalfundi félagsins 13. maí 2006.

    Á aðalfundi 2024 ber að kjósa þrjá meðstjórnendur í stjórn félagsins til tveggja ára.

    Að auki ber að kjósa tvo varamenn í stjórn til eins árs og þrjá skoðunarmenn reikninga, þar af einn til vara.

    Vigdís Stefánsdóttir sem hefur verið meðstjórnandi í stjórn félagsins frá árinu 2022 gefur ekki kost á sér til frekari stjórnarstarfa. Sama gildir um Hildi Baldursdóttur sem hefur verið varamaður í stjórn félagsins frá árinu 2021.

    Nefndin leggur eftirfarandi tillögu sína um kjör í stjórn félagsins beint fyrir aðalfund þann 25. maí 2024:

    Meðstjórnendur, til tveggja ára:

    Sigurður Hannesson var kjörinn í stjórn Krabbameinsfélagsins árið 2020 og hefur verið gjaldkeri í stjórn Krabbameinsfélagsins síðan.

    Sigurður er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Áður en hann hóf störf hjá samtökunum í ágúst 2017 starfaði hann á fjármálamarkaði í áratug, síðast sem framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku banka (áður MP banka). Hann veitti stjórnvöldum ráðgjöf við endurreisn íslensks efnahagslífs, sem varaformaður framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta 2015 og formaður sérfræðingahóps um Leiðréttinguna 2013. Sigurður er stjórnarformaður Kviku banka og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann situr einnig í stjórnum Háskólans í Reykjavík og Auðnu tæknitorgs auk nokkurra annarra félaga. Sigurður er stærðfræðingur að mennt með doktorspróf frá Oxford-háskóla.

    Vala Smáradóttir, formaður Krabbameinsfélags Höfuðborgarsvæðisins býður sig fram til stjórnar KÍ. Vala sat í stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur frá 2013-2017 og hefur setið í stjórn Krabbameinsfélags Höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2020. Hún var kjörinn formaður félagsins í mars 2024. Vala er með bakgrunn í verkefnastjórnun á sviði nýsköpunar, stafrænna umbreytinga, samskipta og markaðsfræði. Vala er með BA gráðu í spænsku og MA gráðu í hagnýtri menningarmiðlun auk viðbótardiplóma í kennslufræðum.


    Vilhjálmur Egilsson var kjörinn í stjórn Krabbameinsfélagsins árið 2022 og hefur verið ritari stjórnar síðan. Hann er með doktorspróf í hagfræði og á langan starfsaldur í mörgum ábyrgðarstörfum. 

    Hann starfaði sem hagfræðingur Vinnuveitendasambandsins, var framkvæmdastjóri Verslunarráðs og Samtaka atvinnulífsins, alþingismaður frá 1991 til 2003, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu og síðast rektor Háskólans á Bifröst frá 2013 til 2020. Hann hefur langa reynslu af stjórnarstörfum í fjölda fyrirtækja og sjóða og félagasamtaka og hefur gegnt formennsku í nefndum á vegum Alþingis. Hann hefur setið í ýmsum nefndum og starfshópum á vegum hins opinbera. Vilhjálmur er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki, kvæntur Ragnhildi Pálu Ófeigsdóttur. Þau eiga fjögur börn og sjö barnabörn. 

    Varamenn til eins árs:

    Hlédís Sveinsdóttir gefur kost á sér áfram sem varamaður í stjórn en hún var kjörin varamaður í stjórn Krabbameinsfélagsins á síðasta ári. Hlédís er með BA í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Hún á og rekur fyrirtækið Eigið fé ehf og hefur undanfarin ár starfað sem sjálfstæður verkefnastjóri.
    Hún er búsett á Akranesi og var í stjórn Krabbameinsfélags Akranes um nokkurra ára skeið. Fædd og uppalin á Snæfellsnesi og dvelur þar gjarnan í fríum með dóttir sinni. 

    Pétur Jónasson,  formaður KAON, Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis gefur kost á sér í sæti varamanns í stjórn félagsins. Pétur hefur langan starfsferil, einkum á sviði búvísinda og sveitarstjórnarmála, sem sveitarstjóri og framkvæmdastjóri sambands sveitarfélaga. Pétur er með meistarapróf í búvísindum en hefur til viðbótar lokið námi í verkefnastjórnun og fleiru. Hann hefur víðtæka reynslu af setu í stjórnum og vinnuhópum. Ástæða þess að Pétur býður sig fram er eigin reynsla af því að vera með krabbamein og reynsla hans af setu í stjórn KAON frá árinu 2022. „KAON er öflugt félag með metnaðarfulla stjórn og starfsmenn. Ég tel að reynsla mín úr öflugu landsbyggðarfélagi eigi erindi við Krabbameinsfélag Íslands og sé liður í því að efla tengsl.“

  • Birna Guðmundsdóttir, Jón Auðunn Jónsson og Ólafur Dýrmundsson gefa öll kost á sér til áframhaldandi starfa sem skoðunarmenn reikninga.

    Birna og Jón Auðunn voru fyrst kosin árið 2014 og Ólafur árið 2017.

    Skoðunarmenn reikninga til eins árs:

    • Birna Guðmundsdóttir.
    • Jón Auðunn Jónsson.

    Skoðunarmaður, til eins árs, til vara:

    • Ólafur Dýrmundsson. 
  • Til starfa í uppstillingarnefnd félagsins gefa áfram kost á sér:

    • Guðjón Hauksson hjúkrunarfræðingur og forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Hann sat í stjórn Krabbameinsfélagsins árin 2017 – 2019 og var kjörinn í uppstillingarnefnd árið 2021.
    • Jón Þorkelsson, viðskiptafræðingur og formaður Stómasamtakanna. Hann var gjaldkeri stjórnar Krabbameinsfélagsins árin 2013 – 2020 og var kjörinn í uppstillingarnefnd árið 2021.
    • Ragnar Davíðsson, viðskiptafræðingur og formaður Nýrrar raddar. Ragnar var kjörinn í uppstillingarnefnd árið 2022.
    • Sigrún Lillie Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og starfsmaður Krabbameinsfélagsins til fjölda ára, bæði í Heimahlynningu og sem forstöðumaður ráðgjafar og stuðnings. Sigrún var kjörin í uppstillingarnefnd árið 2022.
    • Svanhildur Inga Ólafsdóttir félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur og formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu. Svanhildur var kjörin í uppstillingarnefnd árið 2023.
  • Því lífið liggur við

    Appelsínugul viðvörun áfram í kortunum

    Í ályktun aðalfundar Krabbameinsfélagsins í maí 2023 var vakin athygli á appelsínugulri viðvörun í kortunum, vegna spár um gríðarlega mikla áframhaldandi fjölgun krabbameinstilvika á næstu árum. Í ályktuninni voru stjórnvöld hvött til að koma upp virkri krabbameinsáætlun með markvissum aðgerðum til að geta brugðist við. Því miður er viðvörunin enn í fullu gildi.  

    Birtir til?

    Afar ánægjulegt er að heilbrigðisráðherra brást við áskoruninni og skipaði í byrjun þessa árs samráðshóp um aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum til fimm ára. Fundurinn bindur miklar vonir við vinnu samráðshópsins og að niðurstaðan leiði til tímasettrar og fjármagnaðrar aðgerðaáætlunar sem geri mögulegt að takast á við áskoranirnar. Fundurinn hvetur til þess að forvarnir, skimanir og staðlaðir greiningar- og meðferðarferlar verði hluti af aðgerðunum.

    Stöndum vörð um það sem gott er; Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum

    Aðalfundur Krabbameinsfélagsins hvetur heilbrigðisráðherra í samstarfi við önnur stjórnvöld, að setja forvarnir í forgang, með virkum stjórnvaldsaðgerðum til að efla lýðheilsu. Margir erlendis horfa til Íslands varðandi árangur í forvarnarmálum, tóbaksvörnum og áfengisneyslu ungmenna sérstaklega. Standa þarf vörð um þennan árangur og gera enn betur.  

    Aðalfundur Krabbameinsfélagsins skorar á stjórnvöld að taka skýra afstöðu með lýðheilsu og fólkinu í landinu, virða gildandi lög og reglur og auðvelda ekki aðgengi að áfengi, tóbaks- og nikótínvörum. Ef einhver vafi leikur á, láta lýðheilsuna njóta vafans. Markmiðið: að auðvelda almenningi að fylgja ráðleggingum embættis landlæknis um mataræði, hreyfingu og áfengisneyslu. Með samstilltu átaki er hægt að koma í veg fyrir fjögur af hverjum tíu krabbameinum. Því lífið liggur við.

    Hámarksárangur af krabbameinsskimunum

    Aðalfundurinn skorar einnig á heilbrigðisráðherra að styðja við þær stofnanir sem sinna krabbameinsskimunum þannig að hámarksárangur verði af skimununum. Grípa þarf til kerfisbundinna aðgerða til að auka þátttöku, gera brjóstaskimun gjaldfrjálsa, tryggja nægt aðgengi að tímum og að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi sem hefst seint á þessu ári, verði sem fyrst innleidd að fullu. Því lífið liggur við.

    Stöðluð ferli allt frá því að rökstuddur grunur um krabbamein vaknar

    Aðalfundur Krabbameinsfélagsins skorar einnig á heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að hér á landi verði innleidd stöðluð greiningar- og meðferðarferli allt frá því að rökstuddur grunur vaknar um krabbamein þar til endurhæfingu eftir krabbamein er lokið. Um er að ræða stórt framfaraskref til að auka líkur á að krabbamein greinist snemma, sem eykur batahorfur og fyrirsjáanleika fyrir sjúklinginn. Ferlið er til  þess fallið að auka jöfnuð, óháð búsetu, þjóðerni og samfélagsstöðu, koma í veg fyrir óþarfa biðtíma og auka öryggi sjúklinga. Því lífið liggur við.

    Jöfnuður

    Allt ofangreint á það sameiginlegt að vinna gegn ójöfnuði tengdum krabbameinum sem er vaxandi hér á landi líkt og annars staðar. Aðalfundurinn undirstrikar mikilvægi þess að í allri krabbameinsþjónustu sé hugað að því að draga úr ójöfnuði sem getur tengst búsetu, uppruna, tungumáli og samfélagsstöðu.