Íbúðir
Á Rauðarárstíg 33 í Reykjavík eru átta íbúðir til afnota fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra utan af landi meðan á krabbameinsmeðferð stendur. Íbúðirnar eru ýmist með einu eða tveimur svefnherbergjum. Tvær íbúðanna eru alfarið í eigu Krabbameinsfélagsins en Rauði kross Íslands á hlut í sex þeirra.
Lágt umsýslugjald er tekið fyrir afnot af íbúðunum. Hægt er að sækja um endurgreiðslu hjá sumum stéttarfélögum. Einnig styðja flest krabbameinsfélög á landsbyggðinni fólk af sínu svæði þegar kemur að kostnaði við ferðir og dvöl að heiman vegna meðferða. LSH sendir reikninga fyrir afnot af íbúðunum mánaðarmótin eftir að dvöl lýkur.
Íbúðirnar eru afhentar hreinar og í hverri viku eru afhent ný hrein rúmföt, handklæði og borðtuskur. Hægt er að fá auka bedda og rúmföt ef þarf. Ekki er ætlast til þess sófar í stofum séu nýttir sem svefnpláss. Þá eru þvottavélar í öllum íbúðum og í nokkrum þeirra þurrkari.
Dvalargestir og aðstandendur eru beðnir um að ganga snyrtilega um, taka af rúmum ásamt því að tæma ískáp og frysti þegar dvöl lýkur.
Ruslageymsla með tunnum fyrir almennt sorp, pappa, plast og matarafganga er á neðstu hæð á hægri hlið húsins þar sem keyrt er inn í bílageymslu. Lykil af ruslageymslu á að skilja eftir í íbúðinni ásamt aukalykli en lykillinn með fjarstýringunni á að skilast til húsvarðar LSH við Hringbraut.
Umsóknir um íbúðirnar og allar nánari upplýsingar fást á móttöku geislameðferðar, Landspítala við Hringbraut í síma 543 6800 og 543 6801. Utan skrifstofutíma má í neyðartilvikum hringja í síma 543 1800 (öryggisverðir á Landspítala).
Mig langar til að skrifa og þakka fyrir afnot af íbúðinni við Rauðarárstíg sem bróðir minn, Þórhallur Arason og ég fengum að búa í í lok síðasta árs og frammí janúar á þessu ári. Þetta var algerlega ómetanlegt fyrir hann sem býr úti á landi og mig sem kom frá Danmörku til að vera með honum á þessum erfiða tíma.
Íbúðin er frábærlega staðsett, vel búin húsgögnum og í henni er allt til alls. Þjónustan sem við fengum var frábær og er vel um íbúðina hugsað.
Með hjartans þökkum og kærum kveðjum, Svava Aradóttir.