Beint í efni
Reynslusaga Ólafur Helgi Gunnbjörnsson 2025

Sit­ur uppi með fylgi­kvilla af með­ferð­inni

Ólafur Helgi Gunnbjörnsson greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli árið 2022.

Það er óhætt að segja að Ólafur og fjölskylda hans ekki farið varhluta af krabbameinum. Árið 2013 greindist konan hans með krabbamein og lést ári síðar. Dóttir hans fékk botlangakast árið 2019, og þá kom í ljós að hún var krabbamein í botnlanganum, sem er mjög sjaldgæft. Hún komst frá því. Bróðir Ólafs greinist svo, árið 2020, með krabbamein í ristli og lést í fyrra. Sjálfur greinist Ólafur Helgi svo með krabbamein í blöðruhálskirtli árið 2022.

„Þegar ég greinist að þá hakar læknirinn við bara meira heldur en minna í blóðprufunni. Og þá kemur í ljós að þessi gildi eru of há og fyrir vikið þá var þetta bara á algjöru frumstigi þegar ég greinist” segir Ólafur Helgi.

„Meðferðin gekk mjög vel og ég slapp vel frá henni fór í geisla en engin lyf og ekki neitt, bara eins létt og löðurmannlegt og hægt er að hugsa sér í þessari aðstöðu. En svo hef ég setið uppi með fylgikvilla af meðferðinni - heilaþoku sem að er frekar hvimleið. Framan af þá tel ég án þess að geta sett puttann á það að mér hafi bara þótt þetta eðlilegt en þegar það var komið hálft ár þá fannst mér að þetta væri ekki alveg eðlilegt að ef ég yrði þreyttur að þá dyttu út nöfnin á barnabörnunum og þar fram eftir götunum. Ég þarf að passa upp á það að verða ekki þreyttur, því þá sónar hausinn út” segir Ólafur.

Það sem hefur hjálpað honum mest í þessari baráttu, fyrir utan fjölskylduna, er Krabbameinsfélagið. Ólafur hefur verið duglegur að nýta sér þjónustu félagsins, sem hefur gert honum mjög gott, hann hefur farið í gönguferðir með Krabbameinsfélaginu, sótt ýmis námskeið og nýtt sér sálfræðiþjónustu.

Ólafur reynir að grípa tækifæri til að ná sér aukaskref t.d. leggur hann alltaf bílnum fjær heldur en nær og ef hann er að fara upp á aðra hæð þá fer hann stigann, þó lyfta sé í boði, jafnvel upp á þriðju. Það eru aukaskrefin sem telja.

„Ég reyni að fara til fjalla, til þess að tæma hugann. Svo er ég svolítið að þvælast á trillunni minni út á sjó. Einn með múkkanum það er ágætis svona, hvað kallar maður þetta, svona hérna núvitund í því fólgin” segir Ólafur.