Pabbi var svo jákvæður og hélt alltaf í vonina
Þegar Jón Reykdal listmálari greindist með heilakrabbamein var það mikið áfall.
„Pabbi var fæddur 1945, og var í raun og veru fyrirmynd í heilsu. Hann reykti aldrei, hreyfði sig á hverjum degi og var fyrstur manna farinn að nota hvítlauk og þessar góðu olíur. Hann var bara mjög heilbrigður maður og því var það mikið sjokk þegar hann greinist með heilakrabbamein. Af hverju hann?” segir Hlín Reykdal, dóttir hans.
Barátta hans var mjög stutt, aðeins hálft ár. Allt gekk mjög hratt fyrir sig, til dæmis hætti hann að geta gengið fljótlega eftir greiningu.
Þegar Hlín hugsar til baka segir hún þetta hafa verið mikinn tilfinningarússibana að ganga í gegnum og um leið ákveðin afneitun.
„Pabbi var svo jákvæður og hélt alltaf í vonina. Hann var í smá afneitun, var að skipuleggja myndlistarsýningu og senda út boðskort uppi á spítala. Sem var kannski bara gott fyrir hann”.
„Ég man að læknarnir sögðu að í því betra formi sem þú ert og því betur sem þú hefur hugsað um þig þá getur verið auðveldara að takast á við svona alvarlegan sjúkdóm eins og krabbamein. Þetta hefur setið í mér og ég tók þessu mjög alvarlega, sérstaklega eftir að pabbi dó”.
Í dag kemst Hlín ekki í gegnum daginn án þess að hreyfa sig en þannig hafi það sannarlega ekki alltaf verið. „Ég upplifi mig í dag næstum eins og afreksíþróttamann því ég hreyfi mig svo mikið” segir hún með bros á vör.
Alltaf þegar Mottumars kemur þá segist Hlín byrja að ýta í karlana í kringum sig, hvetji þá til að fylgjast með einkennum, vera meðvitaðir og láta tékka á sér ef þeir finna fyrir einhverjum breytingum.