Beint í efni
Reynslusaga Guðni Gíslason Mottumars 2025

Ótrú­lega mik­ill styrk­ur að finna stuðn­ing­inn úr öll­um átt­um

Guðni viðurkennir að eftir að hafa lesið um sjötíu pósta sem komu á fyrstu tveimur tímunum við færsluna féllu fyrstu tárin.

Guðni Gíslason er maður margra hatta. Hann er ritstjóri Fjarðarfrétta, bæjarblaðsins í Hafnarfirði, en líka húsgagnasmiður og innanhússhönnuður. Hans fyrsta upplifun af krabbameini var fyrir aldarfjórðungi þegar pabbi hans greindist með krabbamein. Hann man eftir að viðbrögðin voru - af hverju við? Átta árum síðar dó móðir hans einnig úr krabbameini. Sjálfur greindist hann svo með blöðruhálskrabbamein fyrir rúmu ári.

Guðni segist í raun hafa greinst fyrir tilviljun, eftir blóðprufu hjá hjartalækni. Hann hafi ekki verið farinn að finna fyrir neinum einkennum en hjartalæknirinn hafi hringt og sagt að PSA-gildið hafi mælst mjög hátt og hafi hækkað gífurlega á einu ári. Og þá fór allt af stað.

Þegar Guðni hafi farið í sína fyrstu lyfjameðferð setti hann færslu í léttum dúr inn á Facebook. „Ég var að fá antihormónalyf sem gera það að verkum að maður verður svona svolítið mýkri og sagði í færslunni að nú myndi ég fara að gráta yfir bíómyndum. En ég verð að viðurkenna að eftir að hafa lesið um sjötíu pósta sem komu á fyrstu tveimur tímunum við færsluna féllu fyrstu tárin. Það var svo ótrúlega mikill styrkur að finna stuðninginn úr öllum áttum og ekki síst hjá þeim sem hafa svolítið húmor og þekkja mann vel” segir Guðni.

Guðni segist hafa hlaupið gríðarlega mikið í gegnum tíðina, geri enn og gerði alla meðferðina. Þó að þetta hafi þá ekki alltaf verið mikil hlaup, heldur meira gangur með aftasta fólki. „Fyrir mér eru hlaupin ekkert síður andleg, það er eins og maður slökkvi bara á öllum vandamálum þegar maður fer út að hlaupa. Þegar maður fær hjartsláttinn upp, pústar og er úti þá komast engin vandamál að” segir hann.

Útivera er Guðna mikilvæg og því þurfti hann að finna leið í breyttum aðstæðum. Stuttu eftir að hann greindist keypti hann sér fulldempað rafmagnsfjallahjól til að geta farið leiðar sinnar. Hann hvetur fólk til að gera eitthvað svona fyrir sjálfan sig, eitthvað spennandi, sérstaklega sem tengist útiveru í náttúrunni. „Ég verð að viðurkenna að þegar ég fór út á hjólinu í fyrsta skipti fannst mér ég vera bara orðinn strákur aftur og gat hjólað yfir holt og hæðir” segir Guðni með glampa í augum.

Guðni hefur verið með ratleik Hafnarfjarðar í fjöldamörg ár. „Ég byrja að leggja ratleiksmerkin í maí, það var akkúrat þegar ég var að klára lyfjameðferðina þannig að ég var í lélegasta forminu. Það þarf að fara töluvert mikið út í hraun með merkin og þá kom hjólið sér vel. Ég komst ansi víða um hraunin og stíga og fékk í leiðinni svolítið kick út úr þessu” segir Guðni.

Guðni tekur þátt í Skeggkeppni Mottumars

Guðni segist taka þátt í Skeggkeppninni því hann vilji leggja sitt af mörkum, það séu ekki allir eins heppnir og hann sem kominn er á beinu brautina. Mein hans var ekki skurðtækt en því er haldið niðri með aðstoð lyfja.

Mikilvægt sé að geta gengið að góðri aðstoð, bæði læknislegri, andlegri og félagslegri eins og Krabbameinsfélagið og fleiri veita. „Því rennur mér blóðið til skyldunnar og hef ákveðið að safna fyrir Krabbameinsfélagið. Ég treysti Krabbameinsfélaginu til að vinna áfram af krafti til að bæta lífslíkur og lífsgæði fólks sem veikist af krabbameinum“ segir Guðni og skorar á fólk að leggja átakinu lið og styðja söfnun hans fyrir Krabbameinsfélagið.

Reynslusaga Guðni Gíslason 2025
Reynslusaga Guðni 2025
Guðni Gíslason Skeggkeppni