Beint í efni

Sjö­unda árið í röð fær for­set­inn fyrsta parið

Forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni hefur frá árinu 2018 verið afhent fyrsta parið af Mottumarssokkunum sem seldir eru til styrktar Krabbameinsfélaginu í Mottumars, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki sem tileinkað er krabbameinum hjá körlum. Forsetinn hefur sýnt verkefninu ómetanlegan stuðning í gegnum árin.

Forsetinn segir ánægjulegt að hafa getað lagt góðu málefni lið í gegnum árin, hvatt fólk til að huga að heilsunni og fara til læknis finni það fyrir einkennum sem bent gætu til krabbameins og ekki skemmi að hafa getað hvatt fólk til að klæðast fögrum sokkum í leiðinni.

Krabbameinsfélagið þakkar forsetanum fyrir að vera einn af fáum embættismönnum sem talað hefur af alvöru fyrir lýðheilsu og fyrir að hafa sýnt gott frumkvæði og fordæmi í gegnum árin. Það er einstaklega vel við hæfi, þegar Guðni Th. tekur í síðasta skipti við Mottumarssokkum í embætti forseta Íslands að áhersla átaksins sé á aukna hreyfingu, sérstakt hugðarefni Guðna. Í ár verða kallar þessa lands kallaðir út í sérstöku Kallaútkalli sem við hvetjum ykkur til að fylgjast vel með og kynnt verður á næstu dögum!

Hönnun AS WE GROW

Á hverju ári framleiðir og selur Krabbameinsfélagið Mottumarssokka með nýrri hönnun og fylgir eftir með auglýsingu og fjölbreyttri fræðslu. Mottumarssokkarnir í ár eru hannaðir af íslenska hönnunarfyrirtækinu AS WE GROW. Gréta Hlöðversdóttir, Snæfríð Þorsteins og Kamilla Henriau eru hugmyndasmiðirnir og hönnuðirnir á bakvið sokkana.

Sokkarnir koma í sölu 29. febrúar á hátt í 400 sölustöðum um land allt og í vefverslun Krabbameinsfélagsins og hjá AS WE GROW, Klapparstíg 29.  

Sala sokkanna er ein meginstoðin undir starfsemi Krabbameinsfélagsins; ókeypis stuðning og ráðgjöf fyrir fólk með krabbamein og aðstandendur og öflugt rannsóknar- og forvarnarstarf. Allt starfið er fjármagnað með sjálfsaflafé, stuðningi einstaklinga og fyrirtækja.