Beint í efni
Reynslusaga Mottumars Sveinn Þórðarson 2025

Mik­il­vægt að bregð­ast við ein­kenn­um

Sveinn Þórðarson hefur frá árinu 1990 að mestu leyti verið í útivinnu. Hann greindist með sortuæxli árið 2022.

Sveinn Þórðarson vinnur við brúareftirlit hjá Vegagerðinni, hefur verið tengdur brúarvinnu í 35 ár, og býr á Selfossi. Hann greindist með sortuæxli árið 2022.

Sveinn var búinn að finna fyrir einhverri bólu sem átti ekki að vera á eyranu á honum og ákvað að láta lækni kíkja á þetta. Lækninum leist ekki á þetta, skoðaði hann betur og sá einnig fæðingarblett sem honum fannst vera svolítið öðruvísi en hann ætti að vera. Sendi hann til húðlæknis, þar var þetta tekið.

Tíu dögum síðar fær hann símhringingu þar sem honum er boðinn tími í jáeindaskanna. Honum fannst það skrítið þar sem hann hafði ekkert heyrt frá neinum lækni. Hann fer að leita sér upplýsinga og kemur í ljós að hann hafi greinst með sortuæxli. Hann fer í jáeindaskannann og síðan í aðgerð. „Þegar ég er að fara út af spítalanum eftir aðgerðina er mér sagt að það geti verið að ég þurfi að fara í fyrirbyggjandi lyfjameðferð, það komi bara í ljós og það verði haft samband við mig einhvern tímann eftir áramótin” segir Sveinn.

Svo líður tíminn, Sveinn byrjar að vinna í janúar og hefur nóg við að vera. „Mér var farið að lengja eftir því að heyra eitthvað og ég hef samband við krabbameinsdeildina í Reykjavík af því að mér var sagt að þetta yrði sent þangað. Þeir vissu ekki neitt. Svo þegar það er loksins komið á hreint að ég á að fara í lyfjameðferð, byrja þarna einhvern tímann í lok maí, þá þurfti ég að fara til gigtarlæknisins míns. Hann sér hvað er búið að ganga á og horfir svo framan í mig og segir bíddu, hefurðu verið með þessa kúlu undir vinstra kjálkabarðinu?” segir Sveinn.

„Þá kemur í ljós að það þetta var komið aftur af stað. Ég fer aftur í aðgerð og sem betur fer var hægt að taka þetta og þetta var ekkert komið í önnur líffæri. Ég byrja í fyrirbyggjandi lyfjagjöf og er búinn að vera í eftirliti síðan og það gengur bara allt vel” segir Sveinn.

Frá árinu 1990 hefur Sveinn að mestu leyti verið í útivinnu. „Ég hef alltaf verið með hjálm, ég sólbrenn mikið og eyrun á mér hafa oft orðið kexuð af sólbruna. Lýtalæknirinn sem gerði aðgerðina á eyranu á mér sagði að það væri alveg þekkt hjá þeim sem væru mikið í útivinnu og með hjálma að húðkrabbinn kæmi á eyrun, sérstaklega hjá norrænum þjóðum” segir Sveinn.

„Þó okkur finnist yfirleitt alltaf vera of lítil sól hér á Íslandi þá verðum við að gera okkur grein fyrir því að sólin hér er alveg ógnarsterk. Af því að hér er loftið allt svo tært og sólargeislarnir eru mun sterkari” segir Sveinn. 

Eftir að Sveinn hætti í lyfjagjöfinni í sumar þá benti læknirinn honum á að það væri nú mjög skynsamlegt þegar fólk væri búið að ganga í gegnum svona lífsreynslu að fara til sálfræðings og/eða félagsfræðings til að fá aðstoð.  „Ég náttúrulega dró það í ábyggilega tvo eða þrjá mánuði þangað til ég pantaði loksins tíma. En ég byrjaði í haust og er búinn að fara í nokkra tíma og finnst það mjög gott. Þó ég telji mig geta rætt alla hluti við konuna mína þá eru samt alltaf ákveðnir hlutir sem að maður þarf eiginlega að fá eitthvað svona utanaðkomandi eyra til þess að hlusta og kannski benda manni á hvort maður sé að hugsa vitlaust eða rétt” segir Sveinn.

Gæðastundir Sveins felast mikið í samvistum við barnabörnin.  Bara það að geta legið hjá þeim á gólfinu þegar þau hjala og leika sér gefur honum rosalega mikið.