Beint í efni
Fjölskyldusokkar

Hönn­un Ha­varí

Mottumarssokkarnir í ár eru hannaðir af Berglindi Häsler, ekkju Svavars Péturs og eiganda Havarí, í samstarfi við Björn Þór Björnsson (Bobby Breiðholt).

Á hverju ári framleiðir og selur Krabbameinsfélagið Mottumarssokka með nýrri hönnun. Mottumarssokkarnir í ár eru hannaðir af Berglindi Häsler, ekkju Svavars Péturs og eiganda Havarí, í samstarfi við Björn Þór Björnsson (Bobby Breiðholt). Björn hefur undanfarin ár tekið að sér að viðhalda safni myndrænna sköpunarverka Svavars Péturs sem lést úr krabbameini árið 2022. Svavar Pétur var best þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló. Hann var fjölhæfur og framtakssamur tónlistarmaður, myndlistarmaður, hönnuður, matvælaframleiðandi, frumkvöðull og bóndi.

Svavar Pétur Ljósmyndari Baldur Kristjánsson

„Ef það sem við þurftum að ganga í gegnum getur orðið til þess að aðstoða fólk eða veitt innblástur. Ef við getum lagt eitthvað til; það er drifkrafturinn í þessu hjá mér. Afstaða Svavars til lífsins var líka að við megum bara reyna að hafa eins gaman og við mögulega getum þrátt fyrir að lífið hendi í mann allskonar verkefnum“ segir Berglind.

Myndband um hönnun sokkana

Hönnun sokkanna

„Berglind opnaði fyrir okkur upprunaleg hönnunarskjöl Svavars, það er sannkallaður stafrænn fjársjóður“ segir Björn. „Sem dæmi eru aðeins litir sem Svavar skilgreindi og nefndi sjálfur notaðir við hönnun sokkanna í ár.“

„Það lá beinast við að byggja hönnunina á kórónunni sem var hans helsta og íkonískasta tákn. Við reyndum svo að finna þá liti sem pössuðu best við Mottumarslitina“ segir Björn. Mottumarssokkarnir eru villtir í útliti en á sama tíma vandaðir. Það er annað atriði sem á sér samsvörun í höfundarverki Svavars, þar sem ærlegt pönk rann saman við ísmeygilega fágun.

Eins og gjarnan hjá Prins Póló sjálfum var næstum óheft sköpunargleði við völd og því var ákveðið að hanna aukasokka að þessu sinni. „Það var bara ekki hægt að halda aftur af stemningunni og erfitt að stoppa,“ segir Berglind.

Sérstaklega er mælt með því að fólk pari saman mismunandi Mottumarssokka, og gangi stolt í ósamstæðum sokkum í minningu þess góða drengs, Svavars Péturs Eysteinssonar, Prins Póló.

Mottumarssokkarnir 2025
Barnasokkar

Í ár verður boðið upp á barnasokka í stærðum 26-30 og 31-35 og eru þeir einungis fáanlegir í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins.

Sala Mottumarssokkanna

Það er óhætt að segja að Mottumarssokkarnir hafi fest sig rækilega í sessi og margir bíða í ofvæni eftir að sjá hönnun ársins, næla sér í par og skella sér í sokkana. Sala hefst 27. febrúar í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins, hjá Havarí og á hátt í 400 sölustöðum um land allt. Sölutímabilið er út 23. mars.

Nældu þér í par hér.

  • Mottumarssokkarnir koma í stærðum 42-47 og 36-41 og kosta 3.500 kr.
    Í ár koma Mottumarssokkarnir einnig í barnastærðum, 26-30 og 31-35, og kosta 2.900 kr. Barnasokkarnir eru einungis fáanlegir í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins.

    Viðhafnarútgáfur - því sköpunargleðin tók yfir
    Í ár bryddum við upp á þeirri nýjung að bjóða upp á þrjár viðhafnarútgáfur af sokkunum. Það kemur til vegna þess að það var hreinlega ekki hægt að velja bara eitt par þegar sokkaprufurnar komu í hús frá þeim Berglindi og Bobby. Því eru nú í fyrsta sinn framleiddar sérstakar viðhafnarútgáfur af Mottumarssokknum sem einungis verða fáanlegar í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins.
  • Viðhafnarútgáfurnar koma í þremur litum, í stærðum 42-47 og 36-41, og kosta 3.900 kr. 
Viðhafnarútgáfa 2025
Viðhafnarútgáfa 2025
Viðhafnarútgáfa 2025