Forsetahjónin fá fyrstu Mottumarspörin
Forseta Íslands, frú Höllu Tómasdóttur og eiginmanni hennar Birni Skúlasyni voru afhent fyrstu Mottumarspörin sem seld eru til styrktar Krabbameinsfélaginu í Mottumars, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki sem tileinkað er krabbameinum hjá körlum.
Móttökurnar á Bessastöðum voru mjög góðar og sólin brosti við gestum sem forsetinn taldi staðfesta þann góða anda sem fylgdi Mottumarssokkunum. Forsetinn þakkaði Krabbameinsfélaginu fyrir sitt mikilvæga hlutverk í samfélaginu, ekki síst fyrir reglulega vitundarvakningu um krabbamein sem vekur fólk alltaf til umhugsunar, meðal annars um mikilvægi þess að gæta að heilsunni.

Litríkar kórónur í anda Prins Póló
Mottumarssokkarnir í ár eru hannaðir af Berglindi Häsler, ekkju Svavars Péturs og eiganda Havarí, í samstarfi við Björn Þór Björnsson (Bobby Breiðholt). Björn hefur undanfarin ár tekið að sér að viðhalda safni myndrænna sköpunarverka Svavars Péturs sem lést úr krabbameini árið 2022. Svavar Pétur var best þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló.
Hönnunin byggir á kórónunni sem var hans helsta og íkonískasta tákn. Mottumarssokkarnir eru villtir í útliti en á sama tíma vandaðir. Það er annað atriði sem á sér samsvörun í höfundarverki Svavars, þar sem ærlegt pönk rann saman við ísmeygilega fágun.
Mikilvæg fjáröflun
Allur ágóði af sölu Mottumarssokkunum rennur til starfsemi Krabbameinsfélagsins sem miðar að því að færri fái krabbamein, fleiri læknist, lifi lengi og njóti lífsins – með og eftir krabbamein. Öll starfsemi félagsins byggir á styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum og Mottumars er ein af lykilstoðunum.
Myndir: Vilhelm Gunnarsson.
