Áhersla á tengingu lífsstíls og krabbameina
Það er óhætt að segja að það verði líf og fjör í Mottumars, stútfullur mánuður af fræðslu og fjölbreyttum viðburðum.
Í ár er áhersla Mottumars á tenginguna á milli lífsstíls og krabbameina. Krabbameinsfélagið vill í Mottumars vekja athygli á að bæði óheilbrigðar og heilbrigðar lífsvenjur verða til á löngum tíma. Skilaboðin eru einföld. Lífsstíll er ekkert til að grínast með, hann er þvert á móti dauðans alvara.
Lífstíll skiptir máli
Að minnsta kosti þriðja hvert krabbameinstilvik tengist lífsstíl. Þó að enginn sé öruggur er hægt að draga úr líkum á krabbameinum með heilsusamlegum lífsstíl. Þar getum við svo sannarlega gert betur og tilfinningin er að of margir karlmenn taki lífsstíl sinn ekki nógu alvarlega. Því viljum við breyta og leggjum áherslu á að öll skerf í rétta átt að bættum lífsstíl séu til bóta og það sé aldrei of seint.
Mottumarssokkar úr smiðju Prins Póló
Á hverju ári framleiðir og selur Krabbameinsfélagið Mottumarssokka með nýrri hönnun. Í ár eru sokkarnir hannaðir af Berglindi Häsler, ekkju Svavars Péturs og eiganda Havarí, í samstarfi við Björn Þór Björnsson (Bobby Breiðholt). Björn hefur undanfarin ár tekið að sér að viðhalda safni myndrænna sköpunarverka Svavars Péturs sem lést úr krabbameini árið 2022. Svavar Pétur var best þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló. Það lá beinast við að byggja hönnunina á kórónunni sem var hans helsta og íkonískasta tákn. Mottumarssokkarnir eru villtir í útliti en á sama tíma vandaðir. Það er annað atriði sem á sér samsvörun í höfundarverki Svavars, þar sem ærlegt pönk rann saman við ísmeygilega fágun.
Fyrstu pörin á Bessastaði
Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir og forsetagæinn, Björn Skúlason, tóku við fyrstu pörunum af Mottumarssokkunum í gær. Móttökurnar á Bessastöðum voru mjög góðar og sólin brosti við gestum sem forsetinn taldi staðfesta þann góða anda sem fylgdi sokkunum. Halla þakkaði Krabbameinsfélaginu fyrir sitt mikilvæga hlutverk í samfélaginu, ekki síst fyrir reglulega vitundarvakningu um krabbamein vekur fólk alltaf til umhugsunar, meðal annars um mikilvægi þess að gæta að heilsunni. (Mynd: Vilhelm Gunnarsson).

Nældu þér í par
Þegar við klæðumst Mottumarssokkunum sýnum við ekki einungis stuðning í verki heldur minnum við líka hvert annað á hve málið er brýnt og varðar okkur einfaldlega öll. Mottumarssokkarnir eru til sölu í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins, hjá Havarí og á hátt í 400 sölustöðum um land allt. Sölutímabilið er út 23. mars. Í ár koma Mottumarssokkarnir einnig í barnastærðum og þremur viðhafnarútgáfum, sem einungis eru fáanlegar í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins.

Skeggkeppni Mottumars
Skeggkeppnin verður á sínum stað og því ekki eftir neinu að bíða, nema kannski skeggvextinum og að opnað verði fyrir skráningu þann 1. mars. Skartaðu mottu í mars og safnaðu áheitum með því að hvetja vini og vandamenn til að heita á þig og leggja góðu málefni lið.
Fjölbreytt fræðsla og viðburðir
Í Mottumars verða fjölbreyttir viðburðir og fræðsla í tengslum við karlmenn og krabbamein á döfinni hjá Krabbameinsfélaginu og aðildarfélögunum um land allt.
Mottumarshlaupið haldið í annað sinn
Mottumarshlaupið fer fram miðvikudaginn 19. mars. Hlaupið verður 5 km hringur frá Fagralundi í Kópavogi. Hægt er að velja tímatöku eða ekki, svo má líka stytta sér leið. Hlaupið fór fram í fyrsta sinn á hlaupársdeginum í fyrra og fór þátttaka fram úr björtustu vonum, hátt í 500 manns.

Mottumarsdagurinn 20. mars
Við hvetjum alla til að taka þátt, gera sér glaðan dag og vekja athygli á baráttunni gegn krabbameinum í körlum. Sýna þeim sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra stuðning okkar og samstöðu.
Svona nýtist framlag þitt
Allur ágóði af sölu Mottumarssokkunum rennur til starfsemi Krabbameinsfélagsins sem miðar að því að færri fái krabbamein, fleiri læknist, lifi lengi og njóti lífsins – með og eftir krabbamein. Öll starfsemi félagsins byggir á styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum og Mottumars er ein af lykilstoðunum.
Með stuðningi þínum gerir þú félaginu kleift að:
- styðja fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra með ókeypis ráðgjöf hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa.
- styrkja íslenskar krabbameinsrannsóknir sem snúa meðal annars að orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.
- sinna ýmiss konar fræðslu, forvarnarstarfi, námskeiðshaldi og fleiru sem miðar að því að draga úr líkum á krabbameinum og bæta líf fólks með krabbamein.
- sinna hagsmunagæslu og beita sér fyrir bættri aðstöðu fyrir fólk með krabbamein.
Allar nánari upplýsingar um átakið má finna á Mottumars.is