Þvagblöðrukrabbamein
Þvagblöðrukrabbamein er fjórum sinnum algengara meðal karla en kvenna. Sögulega eru þessi mein merkileg að því leyti að þau voru fyrst æxla sem tengd voru við sýkingu af völdum frumdýrsins Schistosoma hematobium og litarefni í efnaiðnaði.
Þvagvegakerfið sér um að flytja þvag, sem framleitt er af nýrunum, út úr líkamanum. Frá nýrum berst þvagið út í nýrnaskjóðu og svo niður eftir þvagleiðurum í þvagblöðru þar sem það safnast fyrir. Þaðan liggur leið þvagsins um þvagrásina út úr líkamanum. Slímhúð þvagvegakerfisins er klædd svokallaðri breytiþekju eða þvagvegaþekju (transitional cell).
Hvað er þvagblöðrukrabbamein?
Krabbamein í þvagblöðru myndast í þekjufrumum í slímhúðinni og eru æxlin mjög mismunandi að gerð og þroskagráðu. Meirihluti æxlanna (75%) er totumyndandi vöxtur upp af slímhúðaryfirborði og vex ekki eða seint niður í þvagblöðruvegginn og í gegnum hann. Önnur æxli vaxa nánast frá byrjun ífarandi í vegg og niður í vöðvalög og geta dreift sér og myndað meinvörp.
Helstu einkenni
Sýnilegt blóð í þvagi er algengasta einkennið, yfirleitt án þess að sársauki fylgi. Fjölmargar aðrar ástæður geta einnig verið fyrir því að blóð komi fram í þvagi, t.d. bakteríusýking. Einstaklingur með sýnilegt blóð í þvagi ætti alltaf að leita læknis.
Tíð þvaglát, þvagtregða eða sviði við þvaglát getur í einstaka tilfellum verið merki um sjúkdóminn. Oftar eru þessi einkenni þó vegna annarra sjúkdóma svo sem þvagfærasýkinga.
Greining
Ef einkenni og þvagrannsókn gefa ástæðu til að ætla að krabbamein geti verið í þvagblöðru er gjarnan gerð röntgenrannsókn af þvagvegakerfinu, sneiðmyndataka og blöðruspeglun.
- Við tölvusneiðmyndatöku er skuggaefni sprautað inn í blóðrásina. Skuggaefnið dreifist síðan til nýrna og annarra líffæra og skilst að lokum út með þvaginu. Með því að taka röð af tölvusneiðmyndum á mismunandi stigum á útbreiðslu skuggaefnisins er hægt að fá góða mynd af öllum þvagfærunum. Stundum greinast grunsamlegar breytingar sem þarf að rannsaka nánar.
- Blöðruspeglun felur í sér að speglunartæki er þrætt upp eftir þvagrásinni til þvagblöðru og innra yfirborð þvagblöðrunnar skoðað með lítilli myndavél sem er á enda speglunartækisins. Ef breytingar sjást í þvagblöðrunni getur þurft að taka sýni þaðan. Er það gert annaðhvort í sjálfri spegluninni eða í skurðaðgerð sem framkvæmd er síðar. Sýnin eru send í vefjarannsókn og kemur þá í ljós hvort um krabbamein er að ræða og þá af hvaða tegund.
Meðferð
Skurðaðgerð með brottnámi æxlis er meginmeðferð við þvagblöðrukrabbameini. Æxli sem vaxa einungis á yfirborði blöðruþekju er oftast hægt að hefla í burtu með sérstökum búnaði í blöðruspeglun á skurðstofu. Þetta kallast TURBT aðgerð (TURBT = TransUrethral Resection of Bladder Tumour). Stundum er gefin viðbótarmeðferð eftir TURBT aðgerðina en þá er lyfjum sprautað inn í þvagblöðruna með einnota þvagleggjum. Viðbótarmeðferðin er venjulega gefin á göngudeild. Algengast er að viðbótarmeðferðin sé gefin í 15 lyfjagjöfum sem er dreift eftir sérstöku skema yfir eitt ár. Ef æxli eru komin á hærra stig og hafa vaxið djúpt í vöðvavegg þvagblöðrunnar getur verið nauðsynlegt að framkvæma stærri skurðaðgerð, svokallað róttækt blöðrubrottnám. Þá er öll þvagblaðran fjarlægð og mögulega önnur aðliggjandi líffæri, s.s. blöðruhálskirtill, innri kvenlíffæri og jafnvel þvagrás. Til að auka líkur á lækningu eftir aðgerðina er oftast gefin krabbameinslyfjameðferð nokkrum vikum fyrir aðgerðina.
Geislameðferð er annar meðferðarkostur sem getur komið í stað aðgerðar með róttæku blöðrubrottnámi. Í sumum tilvikum er gefin samsett meðferð með skurðaðgerð, geislameðferð og krabbameinslyfjum.
Almenn krabbameinslyfjameðferð getur átt við þegar meinið hefur myndað fjarmeinvörp en þá er um ólæknandi sjúkdóm að ræða. Með lyfjunum má hægja á sjúkdómsganginum og halda sjúkdómseinkennum niðri, jafnvel í langan tíma. Lyfjameðferðin hefur þróast mikið undanfarin ár, meðferðarárangurinn batnað og hliðarverkanir minnkað.
Áhættuþættir og forvarnir
Tóbaksreykingar eru langstærsti einstaki áhættuþátturinn. Meirihluti þeirra sem greinast með krabbamein í þvagblöðru reykja eða hafa einhvern tíman reykt.
Efnaiðnaður. Þeir sem vinna með viss efni sem notuð eru í iðnaði, t.d. gúmmí- og litaiðnaði, eru í aukinni áhættu. Þessi efni hafa ekki verið leyfð á Íslandi í áratugi og því afar ólíklegt að þau valdi krabbameininu hérlendis.
Geislun. Til dæmis vegna fyrri geislameðferðar á líffæri í grindarholi sem eru nálægt þvagblöðrunni. Má þar nefna geislameðferð á innri kvenlíffæri, endaþarm og blöðruhálskirtil.
Frumdýrið Schistosoma hematobium getur orsakað þvagblöðrukrabbamein og þá aðallega sérstaka gerð af meininu, svokallað flöguþekjukrabbamein. Þetta frumdýr lifir ekki á Íslandi og líkur á að það valdi krabbameininu hérlendis eru því hverfandi. Frumdýrið er hins vegar algengt í Egyptalandi þar sem það er vel þekkt orsök fyrir krabbameininu.
Líkamsrækt hefur tengst bættum lífshorfum hjá þeim sem greinst hafa með krabbamein í þvagblöðru.
Tölfræði og lífshorfur
Horfur sjúklinga með krabbamein í þvagblöðru eru misjafnar og fara eftir því hvaða gerð æxlis er um að ræða, útbreiðslu þess og vexti inn í nálæga vefi eða líffæri og einnig eftir meinafræðilegri þroskunargráðu æxlis. Ef meinið greinist áður en það nær að vaxa ífarandi inn í þvagblöðruvegginn er oftast hægt að lækna sjúkling alveg, en æxlin hafa tilhneigingu til að koma aftur og þurfa sjúklingar því reglubundið eftirlit.
Hlutfallsleg fimm ára lifun er meira en 70%, en þessar góðu horfur byggjast á því að flest æxlin sem greinast eru totumyndandi æxli upp frá yfirborði slímhúðar og greinast á lágu sjúkdómsstigi. Sjúklingar sem greinast með æxli sem hafa náð að vaxa niður í vöðvalög og í gegnum blöðruvegginn hafa verri horfur.