Beint í efni

Hvít­blæði

Hvítblæði er samheiti yfir krabbamein í blóði. Því er venjulega skipt í tvo meginhópa, langvinnt hvítblæði og bráðahvítblæði. Meðferð hvítblæðis hefur batnað verulega undanfarin ár.

Á hverri mínútu myndast margar milljónir blóðkorna í beinmergnum. Við eðlilegar kringumstæður þroskast blóðkornin í gegnum forstig og sérhæfast í margar gerðir blóðfruma, sem hafa mismunandi hlutverki að gegna í blóðinu. Rauðu blóðkornin flytja súrefni, blóðflögurnar taka þátt í blóðstorknun og viðgerð sára og hvítu blóðkornin verja líkamann gegn veirum og bakteríum.

Hvað er hvítblæði?

Hvítblæði (krabbamein í blóði) er samheiti yfir hóp af sjúkdómum sem felur í sér að hvítu blóðkornin breytast og fjölga sér stjórnlaust í beinmerg og blóði. Venjulega er greint á milli bráðahvítblæðis og langvinns hvítblæðis. Við bráðahvítblæði einkennist sjúkdómurinn af tiltölulega óþroskuðum frumum sem fjölga sér hratt en æxlisfrumurnar í langvinnu hvítblæði líkjast meira eðlilegum fullþroska hvítum blóðkornum. Sjúkdómsferli langvinns hvítblæðis er því hægara en bráðahvítblæðis.

Bráðahvítblæði er skipt í tvo meginflokka:

1. Bráðamergfrumuhvítblæði (acute myeloid leukemia, AML) er algengast meðal fullorðinna en um 10-15% greinist hjá börnum. Það er um þrisvar sinnum algengara en bráðaeitilfrumuhvítblæði.

2. Bráðaeitilfrumuhvítblæði (acute lymphocytic leukemia, ALL) er algengara hjá börnum, eða í um 75% tilfella.

Langvinnt hvítblæði skiptist einnig í tvo meginflokka:

1. Langvinnt eitilfrumuhvítblæði (chronic lymphocytic leukemia, CLL) er algengari gerðin og leggst nær eingöngu á eldra fólk. Það er um fjórum sinnum algengara en langvinnt mergfrumuhvítblæði.

2. Langvinnt mergfrumuhvítblæði (chronic myelocytic leukemia, CML) er algengara hjá eldra fólki en greinist einnig meðal yngra fólks.

Hver tegund hvítblæðis hefur undirflokka sem ekki er farið nánar yfir hér.  

Helstu einkenni

Þessi einkenni geta verið merki um hvítblæði en eru oftar merki um önnur vandamál. Ef einkenni vara lengur en þrjár vikur ætti að leita til læknis:

  • Þreyta og aukin svefnþörf.
  • Hiti.
  • Nætursviti.
  • Stækkaðir eitlar.
  • Húðfölvi.
  • Beinverkir.
  • Marblettir, húðblæðingar, blóðnasir, blæðandi tannhold.
  • Andþyngsli.
  • Hjartsláttartruflanir.
  • Svimi.
  • Höfuðverkur.
  • Hiti og endurteknar sýkingar.
  • Þyngdartap.

Einkenni hvítblæðis stafa fyrst og fremst af skorti á heilbrigðum blóðkornum í blóði og beinmerg en heilbrigðar blóðfrumur eru í stöðugri endurnýjun:

· Skortur á rauðum blóðkornum veldur blóðleysi og einkennum eins og þreytu, aukinni svefnþörf, mæði, hjartsláttartruflunum, svima og höfuðverk.

· Skortur á hvítum blóðkornum getur leitt til endurtekinna sýkinga.

· Skortur á blóðflögum getur leitt til blæðinga sem erfitt er að stöðva. Marblettir og blæðing undir húð (petechiae) geta komið fyrir án ákveðinna einkenna.

· Hægt er að greina skort á blóðkornum með blóðprufu.

· Við bráðahvítblæði fjölga krabbameinsfrumur sér mjög hratt í beinmerg og geta orðið svo margar að þær fylla nánast út í merghol beina. Þessi fjölgun verður þá oftast á kostnað heilbrigðra fruma. Einkenni bráðahvítblæðis geta því þróast nokkuð hratt, innan viku eða nokkurra vikna.

· Einkenni langvinns hvítblæðis ágerast hægar. Langvinnt hvítblæði greinist því oft fyrir tilviljun í rannsókn í tengslum við önnur vandamál.

Þó svo að einkenni séu svipuð hjá fullorðnum og börnum er meðferðin allt önnur. Bráðahvítblæði er algengasta krabbamein meðal barna.

Greining hvítblæðis

Nokkrar aðferðir eru notaðar til að greina hvítblæði:

  • Blóðpróf. Við bráðahvítblæði kemur oft fram í blóðsýni mikil aukning á afbrigðilegum óþroskuðum hvítum blóðkornum, svokölluðum blöstum. Blastar eru annað hvort af eitilfrumugerð (í eitilfrumuhvítblæði) eða mergfrumugerð (í mergfrumuhvítblæði). Blóðgildi rauðra blóðkorna og blóðflagna er oft einnig lágt. 
  • Beinmergssýni er yfirleitt tekið úr mjaðmagrindarbeini og staðfestir greiningu. Beinmergssýni er einnig tekið reglulega meðan á meðferð stendur til að fylgjast með gangi meðferðar.
  • Ónæmisrannsókn. Hvítblæðisfrumurnar eru einnig rannsakaðar með flæðisjárrannsókn sem nemur mynstur yfirborðssameinda á frumunum og er mikilvæg rannsókn til greiningar á undirflokki sjúkdómsins. 
  • Litningarannsókn. Rannsókn er gerð á litningum krabbameinsfrumanna til að sjá hvaða stökkbreyting liggur að baki sjúkdómnum. Við langvinnt mergfrumuhvítblæði (CML) er alltaf gerð litningarannsókn og er hægt að sjá dæmigerðar erfðafræðilegar breytingar í hvítblæðisfrumunum. Það felur í sér að hlutar af litningum 9 og 22 hafa skipt um sæti og myndað svonefndan Philadelphia-litning, sem er forsenda tilurðar þess sjúkdóms.

Meðferð

Bráðahvítblæði

Meðferð bráðahvítblæðis hefur batnað mjög á undanförnum áratugum. Það stafar fyrst og fremst af því að reynsla og rannsóknir hafa sýnt að með því að nota saman nokkur mismunandi krabbameinslyf verður meðferðin áhrifameiri en áður fyrr. Við meðferð bráðahvítblæðis sem miðar að lækningu sjúklings er gefin krabbameinslyfjameðferð í mislangan tíma, með hléum á milli lyfjagjafa. Í vissum tilfellum er einnig reynd beinmergsígræðsla og meðhöndlun með stofnfrumum, eftir að búið er að eyða sjúka beinmergnum með krabbameinslyfjagjöf. Meðferð bráðahvítblæðis gengur sérstaklega vel hjá börnum og ungu fólki. Hins vegar getur verið erfitt að gefa eldri sjúklingum svo krefjandi meðferð þar sem henni geta fylgt aukaverkanir sem hafa í för með sér talsvert mikla áhættu. Er þá oft valið að gefa vægari meðferð til að halda sjúkdómnum í skefjum og minnka einkennin. Sýkingar af ýmsum toga eru aðaláhættan við svo mikla krabbameinslyfjagjöf þar sem hún er ónæmisbælandi, auk þess sem eðlilegum hvítum blóðkornum hefur fækkað mikið við sjúkdóminn. Varnir líkamans eru því ófullkomnar meðan á meðferð stendur. Við óvanalega gerð af bráðahvítblæði, svonefnt promyelocytic leukemia, getur efni sem líkist A-vítamíni fengið hvítblæðisfrumurnar til að þroskast og sérhæfast eins og venjulegar frumur eiga að gera og er það þá gefið samhliða hefðbundinni krabbameinslyfjameðferð.

Langvinnt hvítblæði

Þar sem langvinnt eitilfrumuhvítblæði getur þróast mjög hægt yfir margra ára tímabil er oft beðið með meðferð þangað til sjúklingurinn fær einkenni vegna sjúkdómsins. Þá eru oft gefin krabbameinslyf. Helstu einkenni sem kalla á að hefja meðferð eru almennur slappleiki, þyngdartap, nætursviti, veruleg stækkun eitla eða hröð hækkun hvítra blóðkorna í blóði. Sú meðferð sem valin er fer eftir aldri sjúklings og almennu ástandi. Oftast er gefin samsett lyfjameðferð sem inniheldur hefðbundin krabbameinslyf ásamt mótefnameðferð. Með mótefnameðferð er átt við lyf sem er mótefni við CD20-yfirborðssameind á yfirborði sjúku eitilfrumanna og bætir verulega árangur meðferðar.

Miklar framfarir hafa orðið í meðferð langvinns mergfrumuhvítblæðis eftir að sérhæfðir thyrósín-kínasahemlar, eins og lyfið imatinib, komu á markað. Þessi lyf eru tekin í töfluformi og þolast yfirleitt vel. Í flestum tilfellum er árangur meðferðar með slíkum lyfjum mjög góður og flestir sjúklingar virðast losna alveg við sjúkdóminn. Sjúklingar eru þó ekki taldir læknaðir og þurfa að taka lyfið ævilangt til að halda sjúkdómnum niðri. Langvinnt mergfrumuhvítblæði er í vissum tilfellum meðhöndlað með beinmergs- eða stofnfrumuígræðslu. Þetta er einkum reynt hjá yngra fólki ef meðferð með thyrósín-kínasahemlum gefur ekki nægjanlega góðan árangur eða ef sjúkdómurinn tekur sig upp aftur eða stökkbreytist yfir í bráðahvítblæði, sem getur gerst í einstaka tilfellum. Líkurnar á að læknast eftir slíka ígræðslu þurfa í hverju tilfelli fyrir sig að vega upp á móti hættunni á ýmiss konar sýkingum sem fram geta komið þegar varnarkerfi líkamans (ónæmiskerfið) er veiklað vegna meðferðarinnar og sjúkdómsins.

Áhættuþættir og forvarnir

Orsakir bráðahvítblæðis eru að litlu leyti þekktar en líklegt er að margir þættir spili saman. Eftirfarandi þættir geta aukið líkur á að fá sjúkdóminn: 

  • Reykingar. Þeir sem reykja eru í aukinni hættu á að fá hvítblæði. Einnig eru vísbendingar um að börn reykingamanna séu í aukinni hættu á að fá bráðahvítblæði. Þetta er þó ekki sterkur áhættuþáttur.
  • Erfðir. Tíðni bráðahvítblæðis er vægt aukin hjá eineggja tvíburum og systkinum þeirra sem fá bráðahvítblæði. Þetta á við um langvinnt eitilfrumukrabbamein en ekki um bráðahvítblæði. 
  • Jónandi geislun. Þau sem lifðu af kjarnorkusprengingarnar í Hiroshima og Nagasaki voru í aukinni áhættu að fá bráðahvítblæði. 
  • Eiturefni. Fólk sem er mikið innan um viss eiturefni, eins og bensen og formaldehýð, er í aukinni áhættu. 
  • Krabbameinslyfjameðferð. Þau sem hafa gengist undir meðferð með vissum tegundum krabbameinslyfja geta verið í aukinni áhættu. 
  • Veirusýking. Þær veirur sem hafa verið tengdar aukinni áhættu eru: Ebstein-Barr veira, lifrarbólgu-C veira, HIV-veira og HTLV-1 veira (Human T-cell lymphotropic virus type 1). 
  • Bakteríusýking. Helicobacter pylori ,sem þekktust er fyrir að auka áhættu á sjúkdómum í maga, hefur verið tengd aukinni áhættu.

Tölfræði og lífshorfur

Bráðahvítblæði
Horfur við bráðahvítblæði hafa batnað mjög á síðustu áratugum. Það gildir sérstaklega um börn með brátt eitilfrumuhvítblæði. Nú orðið er unnt að lækna um 90% þeirra, a.m.k. tímabundið, og tveir af hverjum þremur læknast alveg. Einnig hafa líkur á bata aukist mikið hjá ungu fólki. En þó svo að horfur fyrir bráðahvítblæði hafi batnað verulega er sjúkdómurinn samt sem áður alvarlegur. Margir þættir hafa áhrif á horfur sjúklinga með bráðahvítblæði, svo sem gerð sjúkdómsins og undirflokkar, litningabreytingar og aldur og fyrra heilsufar sjúklings. Því er erfitt og ónákvæmt að segja til um horfur sjúklinga fyrir sjúkdóminn í heild sinni.

Upplýsingar frá Rannsóknarsetri - Krabbameinsskrá

Langvinnt hvítblæði.
Horfurnar fyrir sjúklinga með langvinnt eitilfrumuhvítblæði eru yfirleitt góðar þó að þess beri að geta að sjúkdómurinn læknast yfirleitt ekki. Margir sjúklingar lifa árum saman með sjúkdóminn. Horfur sjúklinga með langvinnt mergfrumuhvítblæði hafa batnað mikið á síðari árum með nýjum lyfjum og einnig bættum árangri við beinmergsígræðslu.

Upplýsingar frá Rannsóknarsetri - Krabbameinsskrá